142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það vantar eitthvað í þessa umræðu. Það sem ég held að á skorti sé að hæstv. fjármálaráðherra botni það sem hann byrjaði að segja áðan þegar hann vék að því að nauðsynlegt væri að endurskoða útgjaldahlið fjárlaga í tengslum við það tekjutap sem fyrirsjáanlegt væri vegna þessa frumvarps. Við erum að tala um 535 milljónir á þessu ári og hálfan annan milljarð á næsta ári. Já, en lögin eru ekki komin til framkvæmda, sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan. Jú, þau eru það. Þetta er lögfestur skattur sem gert er ráð fyrir í tekjuáætlunum ríkissjóðs á þessu ári og á komandi ári.

Þess vegna er þetta veruleiki sem verður að horfast í augu við. Það viðurkenndi hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði að nauðsynlegt væri að endurskoða útgjaldahlið fjárlaganna. Ég skildi hann svo. Hann verður þá að skýra mál sitt nánar hér á eftir.

Annað sem fróðlegt væri að heyra nánar frá hæstv. fjármálaráðherra, og ég mun koma að síðar í ræðu minni, snýr að því hvernig samfélagið nýtir sér arðinn af ferðamennskunni. Ég heyrði ekki betur en að hann talaði um að nú ætti að stuðla að því að við fengjum annars konar ferðamenn til Íslands en áður var, efnameira fólk sem borgaði meira inn í samfélagið. Hefur þetta verið rætt? Hefur þetta verið rætt við ferðaþjónustuna? Til hvaða ráðstafana ætlar ríkisstjórnin að grípa til þess að breyta samsetningu ferðamanna sem koma til Íslands? Meira af þessu síðar, en þetta eru þættir í umræðunni sem á eftir að botna.

Væri það gott fyrir mig, Ögmund Jónasson, að greiða minni skatta en ég geri nú? Ef við skoðum málið þröngt þá er svarið afdráttarlaust já. Þá hef ég meira handa í milli, kaupmáttur minn eykst að öllu öðru óbreyttu. — Að öllu öðru óbreyttu, það er þetta samhengi sem skiptir máli.

Ég heyrði af ágætu kunningjafólki mínu sem hefur verið búsett í Bandaríkjunum en er nú á leið heim til Íslands. Ég man eftir því að þetta fólk hefur oft dásamað hve skattar séu lægri þar en gerist hér. En hvers vegna er þessi ágæta fjölskylda þá á heimleið? Ástæðan er þessi: Börnin eða unglingarnir eru komnir þar á veg í sinni skólagöngu að nú þarf að fara að greiða skólagjöld. Það sem verra er og alvarlegra er að veikindi eru komin upp í fjölskyldunni. Það þarf að greiða fyrir þau. Þetta er samhengi hlutanna. Þetta er samhengið, hvort við höfum hér trausta almannaþjónustu í menntakerfi og heilbrigðisþjónustu eða rándýrar einkalausnir.

Það er valið sem við stöndum frammi fyrir og skyldi hið sama ekki eiga við um fyrirtækin? Ég hef stundum vitnað í könnun sem var gerð í Danmörku árið 1997 á vegum atvinnuvegaráðuneytisins þar, þar sem atvinnurekendur voru spurðir: Hvað þarf að vera fyrir hendi til þess að þinn atvinnurekstur fái þrifist? Hver skyldu svörin hafa verið? Efst á blaði voru góð barnaheimili. Síðan var talað um samgöngur, fjarskipti, heilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu og löggæslu.

Muna menn sem voru í þessum sal fyrir fáeinum vikum þegar við ræddum um stöðu löggæslunnar á Íslandi? Hver var sameiginleg niðurstaða fulltrúa allra flokka um hvað þyrfti að fá mikið til löggæslunnar til þess að viðunandi væri á komandi ári? 3,4 milljarða kr. í aukningu frá því sem nú er. Helminginn af því er fjármálaráðherra núna að leggja til að við afsölum okkur til að ívilna fyrir ferðaþjónustunni, hugsanlega á kostnað löggæslunnar eða heilbrigðisþjónustunnar eða menntakerfisins. Þetta er samhengi hlutanna og við getum ekki rætt þessi mál án þess að skoða samhengið.

Hér fór fram ágæt pólitísk umræða fyrir um klukkutíma um þetta pólitíska samhengi þar sem hæstv. forsætisráðherra var spurður út í skattstefnuna. Fjármálaráðherrann, formaður Sjálfstæðisflokksins, botnaði þá umræðu í innleggi sínu áðan. Hann sagði: Það þarf ekki að koma neinum manni á óvart í þessum sal að deildar meiningar skuli vera um skattstefnu.

Það er alveg rétt. Þess vegna er ég ekki í Sjálfstæðisflokknum. Ég vil styrkja almannaþjónustuna með greiðslum minna skatta úr sameiginlegum sjóðum í stað þess að treysta á rándýrar einkalausnir. Sannast sagna, hæstv. forseti, hafði ég trúað því að Framsóknarflokkurinn hefði eitthvað lært eftir tólf ára samfylgd með Sjálfstæðisflokknum, þar sem hann var orðinn svo lúinn eftir þrautagönguna árið 2007 að hann þurfti að skrúbba sig í hálfan áratug áður en hann treysti sér aftur að bjóða fram undir merki síns flokks sæmilega uppréttur. Þannig var það nú. Sú stefna sem hæstv. fjármálaráðherra gumar af núna og segir að eigi ekki að þurfa að koma nokkrum manni á óvart gekk út á að ívilna hinum tekjuhærri í þjóðfélaginu á kostnað hinna tekjulægri.

Þetta er staðreyndin, þetta er veruleikinn sem hæstv. fjármálaráðherra er að minna okkur á núna. Það er þessi hugsun sem Bandaríkjamenn kalla „trickle-down economics“ og hefur verið þýdd á íslensku sem brauðmolahagfræði. Ívilnum hinum ríku, gefum þeim svigrúm til að baka sín miklu brauð og þá munu einhverjir molar hrjóta af borðum þeirra til hinna sem minna hafa.

Þetta er pólitísk stefna og það var þessi pólitíska umræða sem hófst hér á fyrsta alvöruþingdeginum í fyrirspurnum til ráðherra. Forsætisráðherra svaraði og hæstv. fjármálaráðherra hefur svarað líka og einnig í gjörðum sínum. Því stöndum við núna frammi fyrir með þessu frumvarpi sem hér er við að eiga.

Þá kemur að stóru spurningunni: Hvernig á að finna jafnvægið á milli skattlagningar annars vegar og útgjalda hins vegar? Það er pólitískt viðfangsefni okkar og við höfum reynt að feta þá braut, sú ríkisstjórn sem hér sat, á sanngjarnan hátt. Við gerum okkur grein fyrir því að hægt er að ofskattleggja, það er hægt að ofskattleggja einstaklinga og fyrirtækin líka. Það er hægt og við megum ekki ganga of langt í því efni, alls ekki. En síðan er hitt að það er líka hægt að skera niður um of í velferðarkerfinu, gagnvart löggæslunni, í skólunum eða í annarri þjónustu. Hið pólitíska erfiða viðfangsefni okkar á liðnum missirum og árum hefur verið að reyna að finna þarna hinn sanngjarna milliveg. Þar erum við komin að viðfangsefni umræðunnar núna, skattlagning á ferðaþjónustuna.

Er ferðaþjónustan mjög aðþrengd? Ég held að ekki sé hægt að alhæfa um hana fremur en hægt er að alhæfa um okkur einstaklingana og fjölskyldurnar eða fyrirtækin almennt í landinu en þó er það svo að í þeirri grein hefur verið gríðarlegur vöxtur. Við erum minnt á það í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands hefur tvöfaldast frá aldamótum, frá því að vera rúmlega 300 þús. og er kominn vel á sjöunda hundrað þús.

Nú er spurningin: Hvernig ætlum við að beina hagnaðinum af þessari mikilvægu atvinnustarfsemi til samfélagsins? Þá eru tvær leiðir.

Fjármálaráðherra varð að hluta til tvísaga eins og ég heyrði áðan því að hann fagnaði því að ferðamannastraumurinn skyldi hafa aukist að þessu leyti og sagði að með áframhaldandi aukningu, eða ég skildi hann svo, mundi arðurinn skila sér inn þrátt fyrir fráfall frá virðisaukaskattshækkuninni. En viljum við það? Viljum við fá 1.200 þús. erlenda ferðamenn á ári til landsins? Erum við fær um að taka á móti slíkum fjölda? Nei, við erum það ekki. Ég held að öllum beri saman um að við erum komin að þanþolsmörkum og við þurfum að búa betur að ferðamannastöðunum, bæta aðstæður þar. Það kostar peninga.

Við eigum eftir að taka þá umræðu. Ætlum við að selja aðgang að Gullfossi? Nei. Geysi? Nei. Við ætlum að taka gjald fyrir margvíslega þjónustu, eða ég er alla vega fylgjandi því, en að hluta til þarf þetta að koma í gegnum almenna skattlagningu. Aukning ein vegur þarna ekki upp á móti og hún er ekki endilega æskileg.

Viljum við þá fara hina leiðina sem hæstv. fjármálaráðherra vék að, eða ég skildi hann svo, að breyta um samsetningu á ferðamönnum, á hópnum, að fá efnameira fólk til landsins? Ég vil fá nánari skýringar á því hvað hér er átt við áður en ég tjái mig um það en ég sé ekki fyrir mér hvernig stjórnvöld geta beinlínis haft áhrif á það.

Það sem mér fannst athyglisvert við þessa umræðu, sem kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og einnig hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, var hve lítill hluti í reynd af kostnaði erlendra ferðamanna við dvöl á Íslandi eru gistinætur, sú þjónusta sem við erum að tala um að skattleggja. Það er alla vega mat þeirra sem ég hef borið málin undir að þetta skipti ekki sköpum fyrir þá eða þessa þjónustu. Þó að þröngt skoðað eigi það við um fyrirtæki í ferðaþjónustu að þau vilji hafa sem allra lægstan skatt, það er skiljanlegt og í anda þess sem ég vék að í upphafi, skipti þetta ekki sköpum þegar á heildina sé litið. En þetta skiptir sköpum fyrir ríkissjóð, fyrir fjárþörf ríkissjóðs. Þar skiptir þetta sköpum. Þetta er samhengið sem við verðum að ræða þessi mál í.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvar sér hann fyrir sér að við skerum niður? Hvar ætlar hann að ná í 535 milljónirnar á þessu ári og hálfan annan milljarð á komandi ári? Til löggæslunnar? Ætlar hann að hlaupa frá þeim áformum sem uppi voru um að reyna að bæta stöðu löggæslunnar? Ég vil taka það samt skýrt fram að jafnan í þeirri umræðu vildi ég horfa til stöðu ríkissjóðs á þeim tíma þegar fram liðu stundir. Ég vil vera sanngjarn í því efni. En þegar ríkisstjórnin gengur hins vegar fram fyrir skjöldu og afsalar ríkissjóði þessum fjármunum erum við farin að ræða hlutina í því samhengi.

Hæstv. forseti. Ég tel því að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að svara hér nokkrum spurningum. Hann hóf umræðu en hefur ekki botnað hana.