142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Við getum ekkert komið okkur undan því að leita leiða til þess að spara í ríkisrekstrinum, endurskoða útgjaldaákvarðanir og finna leiðir til að örva tekjustofnana. Hér erum við að ræða virðisaukaskattsþrepið á gistináttaþjónustuna, þ.e. á hótel og gististaði, og þar voru uppi áform sem hefðu skilað 500 milljónum á þessu ári. Ég skil vel að hv. þingmaður, sem er mikið búinn að fara yfir það hér hvað það eru margir þættir í okkar samfélagi sem þurfa frekari stuðning frá stjórnvöldum, skuli vera miður sín yfir því að tekjurnar kunni mögulega að lækka af þessu. Ég bið hann að vera rólegan yfir því vegna þess að fjöldi ferðamanna hefur farið vaxandi og ég tel að til langs tíma þá muni þetta skila sér mjög vel fyrir ferðaþjónustuna og þar með fyrir ríkissjóð Íslands.

Hins vegar ætti hann kannski að hafa meiri áhyggjur af því að ýmis áform fráfarandi ríkisstjórnar, til dæmis um arð af eignum á þessu ári eða eignasölu, ganga ekki eftir. Það stefnir í að það vanti um það bil 4 milljarða, 4 milljarða varðandi þann lið einan og sér og það er rúmlega talan sem hv. þingmaður talaði um að hann teldi að þyrfti að bæta í til að gera lögreglunni betur kleift að sinna störfum sínum. Það mun líka vanta um það bil 4 milljarða vegna þess að hagvöxturinn er minni en við vonuðumst til á yfirstandandi ári. Allar spár eru á eina lund um það. Það mun valda 4 milljarða tekjutapi. Ég saknaði þess að hv. þingmaður harmaði ekki þá þróun og spyrði sig hvers vegna (Forseti hringir.) hún skyldi vera að raungerast. Svo eru það öll útgjöldin sem eru að fara fram úr því sem stefnt var að samkvæmt fjárlögum, það eru 6 milljarðar. Það er (Forseti hringir.) næstum því tvöföld talan sem hv. þingmaður vill að renni til lögreglunnar til að styrkja hana (Forseti hringir.) í störfum hennar. (Forseti hringir.) Tökum það með í reikninginn.