142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að bregðast við því sem hér hefur komið fram. Ég vil byrja á að minna á það að nýting gististaða á landsbyggðinni er einungis um 30% á ársgrundvelli. Hún er um 60–70% í Reykjavík og það hlýtur að skekkja myndina töluvert fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni.

Þá vil ég líka koma inn á það að ferðaþjónustan gefur út verðskrár með eins til tveggja ára fyrirvara. Eitt af því sem menn gerðu athugasemdir við í vetur þegar stóð til að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu var að ferðaþjónustan og gistihúsaeigendur taka á sig slíka hækkun, það veltur ekki yfir á ferðamanninn, þannig að það rýrir þá tekjur gistihúsaeigenda.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir talaði um að ferðaþjónustan væri um 5% af atvinnusköpun hér á landi og það er vissulega hátt. En þegar við horfum til þess er helmingur af þeirri prósentutölu flugið til landsins. Þessi tala er því kannski ekki alveg rétt miðað við það sem við erum að tala um.