142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú get ég í sjálfu sér ekki svarað fyrir það sem kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur en varðandi nýtingu gistingar á landsbyggðinni er rétt að það hefur komið fram að nýtingin á gistirýminu er mun lakari víða á landsbyggðinni, sérstaklega í dreifðari byggðum, en á höfuðborgarsvæðinu. Það hlýtur að þýða að mikilvægt sé fyrir okkur að bæta aðbúnað á ferðamannastöðum vítt og breitt um landið þannig að þeir verði enn ákjósanlegri áningar- og áfangastaðir fyrir ferðamenn. Þess vegna er mjög mikilvægt að við getum byggt upp í greininni eins og fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar gerði ráð fyrir með umtalsverðum fjármunum í því efni. Ég tel að slík uppbygging mundi til lengri tíma litið óhjákvæmilega og óneitanlega leiða til þess að nýtingin á gistingunni mundi enn fremur batna á gististöðum í námunda við þessar mikilvægu náttúruperlur okkar og ferðamannastaði.

Ég tel að horfa þurfi á þetta í þessu samhengi og miðað við þær forsendur sem komu fram í skýrslunni frá 2012, um að lækkunin á virðisaukaskatti 2007 úr 14% í 7% hefði ekki þýtt lækkun á gistiverði, fæ ég ekki séð að þessi aðgerð núna muni hafa nein úrslitaáhrif um að auka þessa nýtingu í gistingunni sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir vakti máls á.