142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi eignasöluna er það þannig að það eru hátt í 4 milljarðar sem vantar upp á þrátt fyrir þær ráðstafanir sem hefur verið bent á hér að hafi átt að koma í staðinn fyrir eignasölu í bönkunum.

Varðandi það hvort við gætum mögulega verið að njóta aukinna tekna vegna fjölgunar ferðamanna er það svo að gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 26% á fyrsta ársþriðjungi þessa árs samanborið við árið á undan, 26% aukning, þannig að tekjurnar eru að skila sér. Það koma fleiri ferðamenn, kaupa fleiri nætur og það mun skila auknum tekjum í ríkissjóð. Þess vegna ætti hv. þingmaðurinn að taka það með í reikninginn þegar hún veltir fyrir sér hvort hugsanlega kunni að hafa skapast aðstæður til þess að rísa undir þeim væntingum sem hún byggði upp í Vestmannaeyjum um að beita sér fyrir því að hækkunin tæki ekki gildi eða yrði dregin til baka.

Samkvæmt skýrslu sem Samtök ferðaþjónustunnar lögðu fram núna á vormánuðum voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja um 238 milljarðar á síðastliðnu ári. Vöru- og þjónustuskattar á árinu 2010 voru um 15 milljarðar. Þeir hafa án vafa vaxið vegna aukinnar komu ferðamanna í millitíðinni. Ef við skoðum það miðað við innanlandsneysluna, vegna þess að það er vissulega þannig að íslensk fyrirtæki bjóða þjónustuna víða, er heildarferðaneyslan innan lands um 199 milljarðar, þar af útgjöld erlendra ferðamanna um 118 milljarðar. En við erum ekki bara að tala um að virðisaukaskatturinn leggist á erlenda ferðamenn, þetta hefur líka áhrif á innanlandsferðamennskuna sem er veruleg eða um (Forseti hringir.) rúm 40% ferðaneyslunnar í landinu.