142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu þar sem horfið er til baka til fyrri álagningar, þ.e. fara með upp í 14%, sambærilegt og var fyrir hrun, virðisaukaskattinn á gistingu og hóteldvöl. Það hefur vakið athygli, og hefur komið fram í umræðunni, að þetta er fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar og það vekur upp hugleiðingar um hvernig standi á því. Þetta er prinsippmál að því leyti að það snýst um tekjur okkar sameiginlega ríkissjóðs sem að mati núverandi fjármála- og efnahagsráðherra á býsna bágt. Þá skýtur svolítið skökku við að það skuli vera fyrsta verkefnið að fjarlægja tekjustofnana án þess að færa betri rök fyrir því að það muni með einhverjum hætti skila sér til baka eða verða til ágóða á einhvern annan hátt.

Eitt af því sem var fært fram sem rök á sínum tíma þegar menn voru að breyta þessu var að það hefur auðvitað verið þannig í ferðaþjónustu að gengi íslensku krónunnar hefur haft veruleg áhrif á afkomu greinarinnar á hverjum tíma og hefur örugglega líka haft einhver áhrif á hvernig ferðamannastraumurinn hefur verið til landsins. Hér urðum við fyrir hruni á íslensku krónunni. Það var mun ódýrara að koma til Íslands og kannski er það einn af stærstu skýringarþáttunum á því að þeim sem hingað koma hefur fjölgað mjög mikið. Það var líka svo að þegar gengið hrundi og kostnaður allur innan lands hækkaði vissum við að útflutningsgreinarnar nutu góðs af því. Það var alltaf ætlun okkar að þær mundu skila til samfélagsins, til samneyslunnar og til þjónustunnar, því sem þær mögulega gætu til að halda uppi þeirri þjónustu sem við viljum hafa í landinu, þeirri velferðarþjónustu sem er kostuð af skattfé. Það gilti um sjávarútveginn, það gildir um áliðnaðinn, það gildir um ferðaþjónustuna og sjálfsagt mætti nefna fleiri atriði.

Sú táknræna ákvörðun að vera með þetta sem fyrsta mál snýst líka um hugmyndafræði og stefnur. Það hefur komið ágætlega fram í umræðunni að stundum hefur maður á tilfinningunni að sú gamla hugmyndafræði að það að skammta vel á jötuna til ákveðinna aðila muni leiða til þess að það hrökkvi eitthvað af borðunum til annarra virðist enn þá vera við lýði og sú fullyrðing að þegar menn lækki gjöld á ákveðna aðila muni þeir skila því til samneyslunnar. Það eru alltaf að koma fleiri og fleiri vísbendingar um að það sé alls ekki rétt, þetta fari ekki þá beinu leið og komi ekki til samneyslunnar. Það er auðvitað hluti af því sem þarf að skoða og hluti af því sem er verið að slást um í íslenskri pólitík, þessi grundvallarhugmyndafræði.

Við erum sem sagt að fá hér einu sinni enn rökin sem við höfum hlustað á frá til dæmis repúblikönum í Bandaríkjunum, sem hafa verið keyrð aftur og aftur af Sjálfstæðisflokknum til margra ára, að lækkun skatta skili sér í auknum tekjum. Við erum að fá aftur stefnuna sem var notuð fyrir hrun með þeim afleiðingum að hér varð bóla og í heiminum öllum, að vísu með góðu aðgengi að kostnaðarlitlu lánsfé sem leiddi til ofþenslu og þess hruns sem við höfum síðan verið að reyna að vinna úr.

Við þurftum í framhaldi af því þegar við tókum við búi 2009 að fara í gríðarlega þungar og erfiðar ákvarðanir um endurreisn íslensks samfélags. Við völdum blandaða leið sem var tekjuaukning í gegnum skatta, sem var niðurskurður á þjónustu, greiðslum, þó að reynt hafi verið að forgangsraða þar mjög skýrt í þágu velferðar. Auðvitað vorum við að reyna að halda úti umsvifum þar sem það var mögulegt á þeim tímum sem við bjuggum við í yfirskuldsettu samfélagi, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Nú þegar við erum að komast út úr þessu, erum að sjá fyrir endann á því og ætlum að fara að gefa til baka í velferðarþjónustunni fáum við á okkur að það eigi einmitt að draga úr þar sem manni finnst að ætti helst að taka, eins og í sambandi við ferðaþjónustuna. Það vekur athygli að þetta skuli vera forgangsröðunin og fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar.

Ég hef ítrekað flutt ræður um að íslenskt samfélag hafi goldið fyrir það að við setjum ekki samhengi á milli tekna, þess sem við greiðum til samfélagsins, og þeirrar þjónustu sem við fáum. Það er undarlegt að upplifa það, jafnvel hjá hægri stjórnum eins og í Danmörku, að 70% kjósenda þar biðja ekki um skattalækkanir. Þeir styðja skattstefnuna en spyrja: Hvað fáum við fyrir skattana? Hver er þjónustan sem er veitt? Hvað er það sem er verið að borga fyrir skattana okkar?

Frá því ég kom á þing 2007 höfum við búið við að menn komi jafnvel í ræðustól og segi að þegar menn hækki skatta reyni menn auðvitað að svíkja undan skatti. Það hefur verið sagt hér. Okkur vantar þessa samábyrgð á því að samhengi sé á milli þess sem við öflum og þess sem við fáum — það er ekki verið að sóa þeim peningum. Við getum deilt um það og skoðað en við eigum ekki að tala alltaf eins og það sé sóun og því síður að allir peningar sem eru skammtaðir með því að lækka skatta á atvinnulífið, jafnvel langt umfram það sem er annars staðar, skili sér beint í vasa almennings eða til heilbrigðis- eða menntamála. Það hefur því miður aldrei verið þannig. Við höfum engu að síður heyrt þessar ræður í mörg ár án þess að það sé rétt eða færð hafi verið nægjanlega góð rök fyrir því.

Þess vegna erum við að ræða þetta mál í dag. Þess vegna kem ég í ræðustól og ræði málið, vegna þess að mér er annt um velferðarþjónustuna. Ég er einn af þeim sem hafa mátt taka þátt í því sem ráðherra að skera niður gríðarlega mikilvæga málaflokka sem ég hefði betur viljað sleppa við að skera niður. Þess vegna er mér annt um að við getum gefið til baka þar. Við vorum byrjuð á því. Við bættum við í sambandi við lyfjakostnaðinn á spítölunum, við bættum við inn í tækjabúnaðinn upp á 600 milljónir, við bættum við inn í jafnlaunaátak til þess að styrkja stöðu heilbrigðisstétta. Við áttum 600 milljónir fyrir tækjum, við ætlum að henda þeim út um gluggann án þess að það séu nægjanleg rök fyrir því. Ætlum við að skera það niður aftur? Ætlum við að fara í gamla horfið sem var fyrir hrun þar sem við fjármögnuðum ekki þessar stofnanir nægjanlega þegar góðærið var? Ég ætla að vona ekki.

Það er þetta sem við erum að berjast um hér. Við fáum nýja ríkisstjórn sem virðist ekki hafa fylgst með því sem var að gerast á þinginu og í umræðum eða kynningum á því sem var að gerast fyrir kosningar þegar þeir voru með loforðalista sína. Við forgangsröðuðum í fjárlögum fyrir árið 2013 í þágu barna. Við hækkuðum barnabætur. Við börðumst fyrir því að koma á gjaldfrjálsum tannlækningum fyrir börn, vísum inn í framtíðina að vísu en þó þannig að það eru teknir fjórir árgangar á þessu ári. Ætla menn að heykjast á þessu til þess að bjarga að megninu til erlendum ferðamönnum þar sem koma 670 þúsund til Ísland? Ef þið reiknið það út, sem er náttúrlega mikil einföldun og alrangt, og segjum að það sé deilt niður þessum kostnaði sem við erum að tala um, 1,5 milljörðum, þá eru það 2 þús. íslenskar kr. á hvern ferðamann, en það getur skipt sköpum í aðstöðunni sem við gætum skapað fyrir þá peninga sem við erum að missa.

Ætlum við að fresta fæðingarorlofsbreytingunum, gefa til baka þar? Ætla menn ekki að standa við loforðin um að gefa til baka í almannatryggingum? Ætla menn ekki að standa við það sem var sagt í ræðu í gærkvöldi, að það ætti að setja fjölskyldustefnu og bæta hag heimilanna, ekki bara skuldavandann heldur stöðu fólks almennt óháð fjölskyldugerð, sem ég styð heils hugar? Ætlum við að hætta við Barnahúsið sem var tekin ákvörðun um af ríkisstjórn í byrjun þessa árs þegar við fengum upp þau skelfilegu ofbeldisverk sem hafa verið unnin á heimilum víða um landið og eru að koma fram í dagsljósið, sem hafa verið að fara í gegnum dómstólana þar sem kemur í ljós að við getum ekki sinnt þeirri holskeflu öðruvísi en að stækka Barnahús? Ætla menn að taka það út?

Það er sú óvissa sem er verið að tala um að sé að raska öllu hér því að ekki er það Íbúðalánasjóður. Þeir stjórnarflokkar sem núna eru vita manna best hvernig skilið var við Íbúðalánasjóð og vita hver ástæðan er. Það verður fróðlegt að sjá skýrsluna sem kemur um það mál, hvað gerðist á þeim tíma þegar menn voru að veita lán til Íbúðalánasjóðs og höfðu ekki uppgreiðsluheimildir á þeim lánum, sem hefur kostað okkur gríðarlegan pening.

Þegar maður svo veltir fyrir sér skattlagningu á gistinætur, því að niðurstaðan var að fara þá leið frekar en að fara inn í matvöruna, þ.e. að segja inn í greiðslur á veitingastöðum, var einmitt verið að fókusera á að það mundi ekki muna mjög miklu fyrir þann hóp. Þá spyr maður líka, af því að við erum búin að heyra þessa umræðu hér, hver sé stefna nýju ríkisstjórnarinnar í ferðamálum. Þegar menn tala um að við viljum fá hærri tekjur af hverjum ferðamanni, hvar ætlum við að taka þær tekjur? Ætlum við eingöngu að taka þær í magninu?

Ætlum við að hætta því sem er meginforsenda þess að ferðamenn sækja hingað? Það er okkar glæsilega náttúra, einstaka náttúra. Líka fámennið, það að geta verið einn úti í náttúrunni, það að fá að sjá auðnir þessa lands. Það er hluti af því. Við erum þegar komin í vandræði með stærstu staðina þangað sem flestir koma, hina svokölluðu segla eins og Bláa lónið, gullna hringinn með Gullfoss og Geysi, Þingvelli. Ef við ætlum að fjölga ferðamönnum verðum við að koma þeim annað en á þau svæði. Við verðum að koma þeim í Borgarfjörð, við verðum að koma þeim á Snæfellsnes í auknum mæli, enn þá vestar. Hvernig ætlum við að gera það? Ef það kostar ætlum við þá að leggja þann skatt á almenning og láta hann borga það í gegnum almennan tekjuskatt, til þess að greiða niður komu ferðamanna?

Svar mitt er nei, við höfum nóg annað við þá peninga að gera. Það er talað hér um sjálfbærni og auðvitað verðum við að svara því þá hverjir eiga að borga og hvar á að taka gjöld. Ætlum við að taka upp Íslandskort, þ.e. kort þar sem menn borga fyrir að fá aðgang að náttúruperlum? Mér finnst full ástæða til að skoða alla þá kosti. Ríkisstjórnin boðar að það eigi að skipa nefnd, ein af þessum 19 nefndum er einmitt um að skoða það, að vísu merkilegt nokk ekki heildarstöðuna í ferðamálum heldur gjaldtöku á ferðamannastaði. Er það betra en að taka gistináttagjaldið?

Það er ekki þannig þegar við erum að tala svona eða ég tala um þetta hér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ferðaþjónusta er ein af burðarstoðunum núna í íslensku atvinnulífi og hún skiptir mjög miklu máli úti á landi. Eitt af því sem er nefnt í stjórnarsáttmálanum, og ég styð heils hugar, er að menn skoði stöðu landsbyggðar og reyni með skipulögðum hætti að auka þjónustuna þar. Ný ríkisstjórn leyfir sér jafnvel að tala um skattaívilnanir úti á landi, en af hverju gerum við það ekki í staðinn fyrir að fara að lækka gjöldin á höfuðborgarsvæðinu, hafandi fengið tölur frá Landsbankanum nýlega og búið er að merkja svæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að bæta við 1.600–1.800 rúmum á gistiheimilum eða hótelum á höfuðborgarsvæðinu?

Við þurfum að fá þessa þjónustu út á land. Ekki bara vegna þess að hún þurfi endilega að vera úti á landsbyggðinni heldur einfaldlega vegna þess að þar eru seglarnir, það er þangað sem fólkið langar til að komast og þangað þarf það að komast. Við erum ekki bara að tala um ráðstefnugesti sem koma hingað og eru á höfuðborgarsvæðinu og fara ekkert annað. Þá eigum við líka að ívilna þeim sérstaklega ef við viljum það, sem ég er alveg til í að skoða sem landsbyggðarþingmaður og hef alltaf verið tilbúinn að skoða en við setjum það ekki sem almenna reglu fyrir höfuðborgarsvæðið.

Það er líka hjákátlegt að fylgjast með því þegar hæstv. ráðherra bendir á að annars vegar vanti tekjur en það megi samt ekki taka þær þarna. Talandi um að það þurfi að breyta virðisaukaskattskerfinu og einfalda það og jafnvel að fara í, segir hann í viðtölum, að setja eitt skattþrep. Það mundi þýða 20–21% að lágmarki. Þá eru menn ekkert að fara upp í 14%, þá eru þeir að fara upp í 21%, en líka á öll matvæli. Á sama tíma er verið að tala um að lækka skatt á barnaföt. Það eru svona endalausar mótsagnir og við erum bara að kalla eftir því að fá þessa stefnu upp á borðið. Hvert erum við að fara? Fyrir hverja erum við að vinna? Hvað er í forgang hjá nýrri ríkisstjórn? Forgangurinn okkar er að skila samfélaginu aftur því sem við skárum niður til velferðarþjónustu og það er það sem við viljum að verði gert.

Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf bætta aðstöðu á þessum ferðamannastöðum, eins og ég var að segja áður, og þangað hafa verið lagðir verulegir peningar. Það er sett inn í fjárfestingaráætlun allt upp í 750 milljónir, það er 1,5 milljarðar í samstarfi við ferðaþjónustuna inn í Inspired by Iceland sem hefur verið hvatning til þess að fá fólk hingað. Ætlum við að leggja þetta af eða ætlum við að láta skattgreiðendur borga það beint þannig að túristarnir okkar fái niðurgreitt með íslensku skattfé?

Það eru öll þessi svör sem við viljum fá fram hér þegar við erum að fá þetta frumvarp. Þess vegna erum við að eyða tíma í að ræða þetta og mjög mikilvægt er að nefndin sem tekur þetta mál til umfjöllunar fái tækifæri til þess að skoða alla þá þætti í heildarsamhengi, annars vegar hvernig á að haga ferðamálum til lengri tíma og hins vegar hvernig á að haga skattlagningu á fyrirtæki og samræmingu í sambandi við það.