142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessar pælingar hv. þm. Guðbjarts Hannessonar voru áhugaverðar þegar við ræðum hér lækkun á svokölluðum gistináttaskatti úr 14% í 7%. Hann fer vítt og breitt um sviðið, víkur að málum fyrir hrun, ábyrgð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á síðustu fjórum árum — allt frá því að ég settist á þing — spyr hér einna 30 spurninga í tengslum við það að taka til baka þær skattálögur sem ríkisstjórn sem hann sat í ákvað að koma á. Hann ræddi líka mörg þau góðu mál sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði til, meðal annars í tannlækningum barna með ávísun inn í framtíðina og ýmsum öðrum málum, betri fæðingarorlofssjóði með ávísun inn í framtíðina o.s.frv. Við fögnum því. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að þessi ríkisstjórn mun ekki skera það niður.

En mig langar að spyrja hvort það sé virkilega skoðun hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að þessi ákvörðun, að leggja fram frumvarp um að draga til baka þessa skattlagningu, sé ein og sér, eins og hv. þingmaður sagði, fyrirboði þess að hér stefni í nýtt hrun vegna þess að þeir flokkar sem nú sitja á Alþingi hafi í raun valdið hruninu 2008.

Virðulegur forseti. Vissulega varð hér algjört efnahagshrun og íslenskir bankar fóru á hausinn, það gerðu bankar vítt og breitt um heiminn. Var það líka ákvörðun samstarfsflokkanna þá, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eða fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar? Ég óska eftir því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson svari þessu.