142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna, gistináttagjald. Fram hefur komið í umræðum að ríkissjóður er fjárþurfi, hann vantar fé. Þá spyr ég: Er það brýnasta verkefni nýkjörinnar ríkisstjórnar að leggja ekki á fyrirhugaðan virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna sem er í bullandi uppgangi? Er þetta það brýnasta sem brennur á núna í upphafi kjörtímabilsins?

Þegar ríkisstjórnin talar um að fara í ýmsar aðgerðir sem kalla á háar fjárhæðir í útgjöldum og ætlar að koma til móts við kosningaloforðin um að bjarga heimilum í landinu með háum fjárhæðum svo skiptir hundruðum milljarða, þá spyr ég: Er það fyrsta mál, er þetta það brýnasta sem þarf að koma í gegn, að leggja ekki á virðisaukaskatt á ferðaþjónustu sem er í miklum uppgangi?

Í því samhengi — af því að ég nefndi hag heimilanna og talað var um að það ættu ekki vera íslenskir skattgreiðendur heldur erlendir vogunarsjóðir sem ættu að bera þann kostnað að bæta skuldastöðu heimilanna vegna húsnæðislána — hvað er þá að því að erlendir ferðamenn leggi eitthvað til með því að greiða hærri virðisaukaskatt? Er það ekki sambærilegt ef menn horfa á það?

Það er ekki ferðaþjónustan sjálf sem greiðir þennan virðisaukaskatt heldur þeir sem nýta sér þá þjónustu og það eru auðvitað fyrst og fremst erlendir ferðamenn sem koma til landsins. Þar er aukningin alveg gífurleg og fram undan er svo mikil aukning að við sem þjóð vitum að það getur valdið of miklum ágangi á landið. Ferðamannastaðir vítt og breitt um landið eru ekki undir það búnir að taka við öllum þeim fjölda ferðamanna nema við tökum okkur saman í andlitinu og leggjum meiri fjármuni í uppbyggingu ferðamannastaða, leggjum meiri fjármuni í það að dreifa ferðamönnum sem best um landið og reyna að auka hagvöxtinn bæði hjá litlum ferðaþjónustuaðilum jafnt sem þeim stærri. Það kallar á að byggja upp innviði samfélagsins til að koma ferðamönnum með góðum og greiðum hætti út um allt land og styrkja líka almenningssamgöngur í landinu. Þetta gerum við ekki nema við höfum eitthvert fjármagn til þess.

Þess vegna lagði ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili mikla orku í að styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu í samvinnu við aðila í ferðaþjónustu. Sú vinna skilaði miklum árangri sem við erum núna að horfast í augu við. Ég hef alltaf litið þannig á að ferðaþjónustan ætti að standa jafnfætis öðrum atvinnugreinum í landinu og standa undir sömu samfélagslegu ábyrgð með því að greiða skatta sína og skyldur til samfélagsins. Mér finnst að maður verði að horfa á ferðaþjónustuna á jafnréttisgrunni til samanburðar við aðrar atvinnugreinar, þannig lít ég á það. Ég lít ekki þannig á að ferðaþjónustan eigi að vera í einhverju sérstöku hólfi. Hvers vegna, ef henni gengur vel? Það er ekkert sem bendir til annars en að henni muni ganga vel áfram. Það hefur ekkert komið fram hjá ferðaþjónustunni að þessi fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts í 14% hafi haft áhrif á bókanir vítt og breitt um landið. Það hefur ekkert komið fram sem vísar til þess.

Af hverju í ósköpunum ættum við þá sem þjóð og við sem berum ábyrgð á ríkissjóði landsins að fara að gefa afslátt? Eigum við ekki að horfa til þeirra tekjumöguleika sem eru fyrir hendi í landinu frekar en að horfa til þeirra sem hafa ekki burði til þess að greiða meira til samfélagsins en þeir gera? Þá er ég að horfa til láglaunafólks í landinu sem þarf að leggja út fyrir ýmsum hlutum með sínum lágu tekjum og endar ná ekki saman. Einhver verður að standa undir þessu þjóðfélagi, einhver verður að borga hið svokallaða hrun. Þá hlýtur það að vera fyrsta val að horfa til þeirra sem eru í miklum uppgangi, hvort sem það eru einstaklingar sem hafa miklar tekjur og greiða þar með auðlegðarskatt eða fyrirtæki í þeim geira, hvort sem þau eru í sjávarútvegi eða þeir sem kaupa þjónustu í ferðamannagreinum, að þeir greiði þá eitthvað meira til þess að byggja upp, styrkja og rétta af halla ríkissjóðs svo að hægt sé að framkvæma það sem við viljum gjarnan gera en höfum ekki haft efni á.

Við höfum staðið í þeim óvinsælu aðgerðum síðustu fjögur ár að þurfa að draga saman seglin víða. Sérstaklega hefur verið erfitt að þurfa að gera það í velferðarkerfinu og heilbrigðismálum, að taka ýmsar þær ákvarðanir sem eru ekki á stefnuskrá vinstri flokka, en það þarf að gera fleira en gott þykir. Okkur þykir því skrýtið að horfa síðan á það þegar ný ríkisstjórn tekur við stjórnartaumunum að henni detti ekkert gáfulegra í hug en að fara að lækka hugsanlegan tekjustofn á grein sem er í bullandi uppgangi, hækkun mundi ekki hafa áhrif á að ferðamenn hætti við að koma til landsins, síður en svo.

Mig undrar þetta og ég er orðin trúuð á þá kenningu að hægri stjórnir hafi ekki nægilega ábyrga stefnu í efnahagsmálum yfirleitt. Það hefur alltaf verið sú mýta að vinstri menn hefðu ekki hundsvit á peningum, þeir kynnu ekkert með peninga að fara. Þeir vildu bara gefa hægri, vinstri og eyða öllu í einhver velferðarmál og mjúku málin en kynnu ekki að reka ábyrga efnahagsstefnu. Ég tel að síðustu fjögur ár hafi nú aldeilis afsannað slíkt, takandi við því búi sem hægri menn skildu við á Íslandi, því að rekin var mjög ábyrg efnahagsstefna. Og við erum komin þangað sem við erum komin, að fara úr 216 milljarða halla í um rúma 4 milljarða. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er nú búinn að finna það út að um 30 milljarðar séu í halla þó að ég telji að sú tala gangi ekki alveg upp. En ég er hrædd um að hallinn verði ansi mikill ef áfram heldur sem horfir, ef menn ætla að fara í mikil útgjöld á annan kantinn og skera niður tekjupóstana á hinn kantinn. Slík formúla gengur ekki upp í mínum huga. Ég bið, með fullri virðingu fyrir okkar ágæta fjármála- og efnahagsráðherra, að hann endurskoði þetta í ljósi þess að réttara er að taka peningana þar sem þeir eru til frekar en að ætla að leggja þá á almenning í landinu, sérstaklega þann almenning sem hefur kannski ekki úr miklu að spila og getur ekki borið meiri skattbyrðar en hann gerir í dag.

Af því að komið var inn á það áðan að vinstri menn væru mjög skattaglaðir og hefðu hækkað skatta eins og menn hefðu bara gert það sér til ánægju og yndisauka, þá var því nú þveröfugt farið. Farið var út í að taka upp þrepaskipt skattkerfi sem einmitt gerði það að verkum að þeir sem höfðu áður borgað hlutfallslega hærri skatta, lágtekjufólk, greiddu lægri skatta, og þeir sem höfðu hlutfallslega greitt lægri skatta miðað við háar tekjur öxluðu meiri byrðar. Það er jafnaðarmennska og þannig viljum við vinna, vinstra félagshyggjufólk og við jafnaðarmenn allir.

Ýmislegt er hægt að gera fyrir þær tekjur sem nú er verið að tala um að afsala ríkissjóði, 1,5 milljarða á ári. Það eru 6 milljarðar á einu kjörtímabili. Það hefði nú einhvern tíma heyrst hljóð úr horni ef menn ætluðu að henda 6 milljörðum út um gluggann sisvona af aðilum sem hefðu mikla möguleika á að greiða þetta, til dæmis þeir ferðamenn sem koma hingað til landsins. Það væri hægt að gera ýmislegt gott fyrir þá 6 milljarða næstu fjögur árin. Hægt væri að bæta samgöngur, bora einhver jarðgöng, styðja við innanlandsflug í landinu, sem er vissulega orðið þannig að mjög dýrt er orðið að fljúga innan lands og það skiptir máli fyrir ferðaþjónustuna og líka fyrir það fólk sem þarf að nýta sér innanlandsflugið. Hægt væri að horfa á það. Hægt væri að jafna húshitunarkostnað á landinu sem allir flokkar á Alþingi hafa talað fyrir en eitthvað gengur nú rólega að ná þeirri jöfnun. Ég virði minni fyrri ríkisstjórn það til vorkunnar að menn höfðu ekki úr miklum peningum að spila. En ef menn hafa núna möguleika á því að henda á næsta kjörtímabili 6 milljörðum út um gluggann ættu þeir að geta gert ýmislegt til að jafna búsetuskilyrði í landinu.

Ótal verkefni bíða eins og við þekkjum öll eftir þessi erfiðu fjögur ár sem hægt er að nota fjármagn í. Við eigum að fara núna af stað hægt og bítandi í uppbyggingu innviða samfélagsins sem við þurftum að draga saman seglin í vegna erfiðs ástands og fjárskorts ríkissjóðs. Þess vegna vil ég brýna núverandi ríkisstjórn að forgangsraða með öðrum hætti, að fara ekki í að skera niður þá pósta sem eru til staðar og hægt er að hafa tekjur af án þess — ég undirstrika það — án þess að skaða greinina. Ég held að það liggi algjörlega ljóst fyrir að við sem stóðum að síðasta stjórnarmeirihluta vildum veg ferðaþjónustunnar í landinu sem mestan og bestan vegna þess að við sáum öll tækifærin sem í henni fólust.

Við bjóðum heldur ekki ferðamönnum að koma hingað til landsins ef innviðirnir eru í lamasessi. Ef okkar fagra náttúra fær ekki þá umhirðu og uppbyggingu sem hún á skilið þá getum við ekki boðið gestum heim ef allt er í ólagi. Þess vegna treysti ég því að menn endurskoði þessa ákvörðun sína.