142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns á 142. löggjafarþingi, þegar Alþingi kemur saman að nýju, vil ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum, stjórnarmeirihlutanum og minni hlutanum. Það væri óskandi að við notuðum orðin stjórnarmeirihluti og stjórnarminnihluti oftar en orðin stjórn og stjórnarandstaða. Ríkisstjórninni óska ég velfarnaðar í störfum. Megi störf hennar verða landi og þjóð til góðs svo og störf okkar sem skipum minni hlutann að þessu sinni — það verður, held ég, hins vegar ekkert mjög lengi miðað við fyrstu skref.

Alla nýja þingmenn býð ég hjartanlega velkomna til starfa. Ég óska eftir góðu samstarfi við þá svo og eldri þingmenn sem náðu endurkjöri og eru komnir aftur hingað til starfa. Megi störf okkar hér á Alþingi verða landi og þjóð til heilla og megi þau jafnvel breytast töluvert frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Ég held að það yrði þarft og gott framlag okkar til þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fyrsta mál á nýju þingi, fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar, fyrsta mál stjórnarmeirihlutans, sem er um það að fella á brott gildistöku laga sem gerðu ráð fyrir að virðisaukaskattur á sölu á gististarfsemi yrði hækkaður úr 7% í 14%. Ákvörðunin sem var tekin við síðustu fjárlagagerð var ein af þeim ákvörðunum sem við í stjórnarmeirihluta á því kjörtímabili þurftum að taka og stundum — svo að ég verði hreinskilinn og segi það eins og er — með óbragð í munni. Það fylgdi því engin gleði hvort sem verið var að hækka skatta eða skera niður til velferðarmála eða annarra málaflokka. Sú ríkisstjórn vann hins vegar kraftaverk við að bjarga þjóðinni frá gjaldþroti eins og mál stóðu við hrunið sem oft hefur verið gert að umtalsefni.

Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að sá sem hér stendur tók líka þátt í því að lækka virðisaukaskatt af gistiþjónustu, úr 14% í 7%, árið 2007. Þannig geta málin nú æxlast hjá meiri hluta og minni hluta.

Ég ætla að gera að umtalsefni það sem komið er inn á í byrjun, þ.e. í stefnuyfirlýsingunni, um að einfalda eigi skattkerfið á kjörtímabilinu. Einnig segir að neysluskatta eigi að jafna og einfalda. Ég get að sjálfsögðu tekið undir þetta, það hljóta allir þingmenn að gera vegna þess að skattkerfið er mjög flókið. Ég tek eitt dæmi af þeirri atvinnustarfsemi sem hér hefur verið rædd í dag sem rifjaðist upp fyrir mér. Við gerð síðustu fjárlaga, þegar hagsmunaaðilar streymdu á fund nefndarmanna í atvinnuveganefnd til að færa fram rök sín og mótrök, var mér sagt þetta dæmi af ferðaþjónustuaðila, og vil ég nefna það hér sem dæmi um hve flókið skattkerfið er:

Rekstur ferðaskrifstofu er virðisaukaskattsfrjáls. Ferðaskrifstofa getur selt mér þjónustu fyrir 100 þús. kr., tökum bara þá tölu sem dæmi. Hún getur verðlagt þá þjónustu þannig til uppgjörs að ég hafi borgað 25 þús. kr. fyrir gistinguna og 25 þús. kr. fyrir mat og drykk — tökum sem dæmi áfenga drykki, sem eru þá með 25,5% virðisaukaskatti. Þannig er þessi pakki verðlagður á 50 þús. kr. sem skilar sér þá í virðisaukaskatti, sem útskattur og innskattur í uppgjöri þessa fyrirtækis, en 50 þús. kr., sem hægt er að segja að hafi verið starfsemi ferðaskrifstofunnar, eru með núll í virðisaukaskatt. Þetta er dæmi um flókið skattkerfi, flókið fyrir þá sem þurfa að gera upp, flókið fyrir þá sem starfa í greininni, hvernig þetta er slegið inn í kassa, og flókið til uppgjörs hjá endurskoðendum og þeim sem sjá um uppgjörið.

Virðulegi forseti. Þetta er dæmi sem enginn vandi er að taka og fjölmargt annað væri hægt að nefna. Ef ég leigi mér til dæmis hest og fer í útreiðartúr er það ekki með virðisaukaskatt, ef ég man rétt, en ef ég leigi mér aftur hest og leiðsögumann ber það virðisaukaskatt — kannski var það öfugt. Ég ætla að taka fram að ég hafði ekki tíma í dag til að fletta upp í gögnum en einhvern veginn þannig er það.

Ég nefni annað dæmi: Ef túristi fer í hringferð um landið með rútu ber það ekki virðisaukaskatt, en taki hann bílaleigubíl og fylli hann af farþegum ber það virðisaukaskatt. Ég er hjartanlega sammála því að þarna má taka til og lagfæra. En það er í svo mörgu öðru í þessu blessaða kerfi okkar hér á Íslandi sem er svo flókið og erfitt að fara í gegnum. Ferðaþjónustuaðilarnir sem komu til okkar í atvinnuveganefnd og ræddu við okkur nefndarfólk á síðasta kjörtímabili settu upp heimasíðu þar sem hægt var að sjá hve margir þeirra sem seldu gistiþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu væru ekki með virðisaukaskattsnúmer. Það leiðir hugann aftur að því sem ríkisskattstjóri sagði í blöðunum í gær, að því er mig minnir, um stórátak til að fylgjast með ferðaþjónustunni. Það átak á að hefjast á þessu sumri.

Virðulegi forseti. Ég tek það skýrt fram að það voru ferðaþjónustuaðilar sem komu til okkar og bentu á þessi atriði þegar þeir voru að tala fyrir því að skattinn ætti ekki að hækka heldur ætti að fara í aukið eftirlit. Ef allar tekjur í ferðaþjónustunni mundu skila sér yrðu tekjur ríkissjóðs kannski sambærilegar við það sem orðið hefði með umræddri hækkun.

Ég sagði hér áðan að það hefði ekki alltaf verið með gleði sem menn tóku þátt í að samþykkja ýmsar skattahækkanir eða niðurskurð. Þetta var mér ekki gleðiefni. Það versta við þetta mál var hve seint það kom fram, við verðum að vinna hlutina langt fram í tímann ef við ætlum að taka svona ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Margt má segja um það frumvarp sem hér er lagt fram. Það sem mér finnst verst er það sem gert hefur verið að umtalsefni í dag og blandast inn í aðgerðir í ríkisfjármálum, þ.e. hver verður hallinn á ríkissjóði, ágiskanir í þeim efnum — tekjurnar á fyrsta þriðjungi ársins skila sér frekar hægt, við vitum að tekjur skila sér betur á seinni mánuðum. Hver verður hallinn? Hér er það ekki tekið fyrir. Það á að vera leiðarstef, hvort sem menn eru að hækka skatta eða lækka, hvað menn ætla að skera niður í staðinn. Hvað verður skorið niður á þessu ári sem nemur 500 milljónum sem eru áætlaðar tekjur? Ætlar ríkisstjórnin að ráðast á velferðarmál eða á hvað á að ráðast? Og hvað á að gera ef 1,5 milljarðar skila sér ekki á næsta ári? Hvað á að skera niður eða hvar á að ná í meiri tekjur? Eins og komið hefur fram í máli hæstv. fjármálaráðherra vitum við að á fyrsta þriðjungi hefur sala gistinátta aukist um 28 eða 30%. Það gefur vonandi auknar tekjur. Vonandi hefur það allt verið inni í starfsemi með virðisaukaskattsnúmer.

Hvernig á yfir höfuð að fara í gegnum þetta? Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér áðan á það að vera leiðarstef þegar menn gera svona hluti — sá fjármálaráðherra sem hann vitnaði til kenndi honum það — að benda um leið á hvað skera eigi niður. Það lærðum við líka þegar við vorum að berjast fyrir málum sem ráðherrar að innan ríkisstjórnar þyrfti í leiðinni að benda á þau atriði.

Virðulegi forseti. Ég vil í seinni hluta ræðu minnar aðeins koma að því sem hér hefur líka verið gert að umtalsefni, þ.e. hvort ferðamenn séu orðnir allt of margir, hvort við þurfum að fara að segja: Halló, halló, nei takk, kvótinn er búinn, það eru komnir svo margir, það getur enginn komið hingað í október, nóvember og desember. Að mínu mati eru ferðamenn ekkert of margir til Íslands, þeim má fjölga. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat sér þess til að þau 700 þúsund sem eru að koma núna — ef spár á næstu árum, sem gera ráð fyrir milljón ferðamönnum, að mig minnir, ganga eftir þá verður það ekkert of mikið ef unnið er að því að lengja tímabilið í báðar áttir, eins og er að gerast í dag, og líka að því að dreifa ferðamönnum á fleiri staði á landinu.

Það er margt annað hægt að gera en ganga um Reykjavík og skoða söfn — og ganga þá um marmaragólf sem skemmast ekki — eða fara á Gullfoss og Geysi. Það eru fleiri staðir til að fara á. Það er ánægjulegt að verða þess áskynja, eins og er í mínu landsbyggðarkjördæmi, að ferðaþjónusta hefur verið að lengjast í báðar áttir. Það er hið besta mál. Þetta eigum við að skipuleggja og við eigum að gera ferðamönnum kleift að ferðast um landið á öðrum tíma en yfir hásumarið þegar mesta ásóknin er. Það gerum við með bættum samgöngum.

Ég get sagt fyrir minn heimabæ að tilkoma Héðinsfjarðarganga, stórbættar samgöngur, hefur gert það að verkum að þar er ferðamennskutímabilið að lengjast í báðar áttir. Ég sit oft í bakaríinu á Siglufirði í morgunkaffi þegar ég kem þangað og um miðjan nóvember varð ég þess áskynja að þar voru fimm Ítalir á ferð, ég hef aldrei orðið þess var áður á þeim tíma. Ég hef aldrei á ævi minni orðið þess var áður. Tilkoma hins mikla samgöngumannvirkis gerði þetta að verkum og uppbygging er að verða í ferðaþjónustu þar. Ein glæsilegasta uppbygging sem orðið hefur hin síðari ár hér á landi er að eiga sér stað þar vegna þess að við bættum innviðina, við bættum samgöngurnar. Það gerir að verkum að ferðamenn geta heimsótt Siglufjörð og þar með dreifst um landið og séð meira en það sem er hér í nágrenninu.

Virðulegi forseti. Við erum búin að byggja upp helminginn af veginum að Dettifossi, niður að fossi frá þjóðvegi. Ferðamenn ætluðu að fara þangað nú í vetur, og treystu á vetrarþjónustuna sem við erum að kalla eftir, en þá var ófært. Af hverju var ófært? Jú, vegna þess að ríkisapparatið, ríkissjóður, gerði ekki ráð fyrir að það þyrfti að hirða þann veg, að það þyrfti að moka snjó af honum svo að ferðamenn kæmust þar um. Við þurfum að skapa skilyrði þannig að ferðamenn geti farið á fleiri staði á landinu.

Lenging Akureyrarflugvallar 2007 og 2008 gerir að verkum að Akureyrarflugvöllur getur tekið við öllum flugvélum til landsins. Af hverju er ekki meira um beint flug til Akureyrar eða Egilsstaða? Er það kannski vegna þess að ríkisapparatið, og þá á ég við ríkisfyrirtækin, vill stýra öllu inn á Keflavíkurflugvöll og taka það allt þar í gegn?

Virðulegi forseti. Ég get líka tekið dæmi um hina aðalaðkomuleiðina til landsins fyrir ferðamenn — þeir sem ekki lenda í Keflavík koma með Norrænu og þeir koma í land á Seyðisfirði. Er boðlegt að þeir þurfi að keyra upp í 600 metra hæð? Við höfum í fréttum upp á síðkastið heyrt um erfiðleika þar, hvort sem um er að ræða rútur eða einkabíla. Nei, þetta er ekki hægt. Ríkissjóður verður að koma inn í dæmið og hjálpa til við að bæta þær samgöngur þannig að fólk sitji við sama borð, hvort sem það kemur til landsins siglandi með Norrænu til Seyðisfjarðar eða fljúgandi og lendir í Keflavík.

Ég vil að lokum segja að ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein, er jafnvel að sigla fram úr því sem við köllum höfuðatvinnuveginn, sjávarútveginum, í skapandi þjóðartekjum, og það er gott. Þetta er meðal annars að gerast, fyrir tilverknað fyrrverandi ríkisstjórnar, vegna átaks til að fá fleiri ferðamenn til landsins: Ísland allt árið o.s.frv. En þá verðum við að vera tilbúin að taka á móti fólki. Þá kemur að því sem ég sagði áðan: Að mínu mati eru ferðamenn ekki of margir. Landið þolir alveg milljón farþega, og jafnvel fleiri, ef við skipuleggjum það og búum til þannig pakka að menn geti farið á fleiri staði en þá staði sem sérstaklega eru heimsóttir og hafa orðið fyrir miklum átroðningi vegna tilkomu ferðamanna.

Ég er þeirra skoðunar, virðulegi forseti, og hef sannfærst um það eftir samtal mitt við ferðaþjónustuaðila, að við eigum að taka upp svokallaðan ferðamannapassa fyrir þá sem koma til landsins, aðgöngupassa að þeim náttúruauðlindum sem fólk vill fara að skoða, hvort sem það er Gullfoss, Geysir, keyra í gegnum Héðinsfjarðargöng til Siglufjarðar, fara í Ásbyrgi eða hvað við viljum nefna. Þá peninga á að nota til að gera stórátak í að bæta aðgengi ferðamanna að ferðamannaparadísum okkar og koma í veg fyrir frekari skemmdir sem verða vegna þess mikla fjölda ferðamanna sem kýs að koma til landsins og gerir það í miklum mæli núna. Við skulum heldur ekki gleyma því, gott fólk, og virðulegi forseti, að það er að hluta til vegna þess að íslenska krónan hefur hrunið.