142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á fyrsta þingdegi nýs stjórnarmeirihluta á maður að vera jákvæður, og út af fyrir sig má segja jákvætt um það mál sem hér er lagt fram að það gefur tækifæri til þess í upphafi kjörtímabils að hafa eldhúsdag og fara nokkuð ítarlega yfir það grundvallarsvið sem ríkisfjármálin eru í þinginu. Þar með er það eiginlega upptalið sem hægt er að segja sérstaklega jákvætt um þetta, fyrir utan það auðvitað að alltaf er gleðilegt ef hægt er að lækka skatta.

Það að þetta mál sé hins vegar fyrst á dagskránni hlýtur að vekja nokkra furðu um forgangsröðunina í þinginu. Maður spyr eftir góða umræðu og ágæta þátttöku Sjálfstæðisflokksins: Hvar er Framsóknarflokkurinn í þessari umræðu? Hvar hefur Framsóknarflokkurinn verið í umræðunni í dag? Hvar eru talsmenn Framsóknarflokksins, leiðandi stjórnarflokksins í fyrsta frumvarpinu sem lagt er fyrir þingið og sem varðar ríkisfjármál og efnahagsmál? Ég kalla eftir því að heyra í talsmönnum Framsóknarflokksins af því að eitt af því sem manni finnst kannski einkennilegast við að sjá svona skattalækkunarútfærslur Sjálfstæðisflokksins fyrst á dagskránni er að legið hefur fyrir, yfirlýst af hálfu minni hlutans eða stjórnarandstöðunnar, að þau mál sem Framsóknarflokkurinn ekki síst bar fram í kosningabaráttunni, þ.e. afnám verðtryggingar og skuldavandi heimilanna, væru með því lýðræðislega umboði Framsóknarflokksins og með það afl að baki sér að þeim málum sem þannig kæmu fram á sumarþinginu yrði sérstaklega greidd leið í gegnum þingið, jafnvel þó svo að stjórnarandstöðuflokkarnir kynnu að hafa einhver önnur sjónarmið um einstök atriði, útfærslur eða kostnað eða annað þess háttar. Þetta er ákaflega fátítt. Þess vegna átti ég auðvitað von á því sem formaður þingflokks eins af stjórnarandstöðuflokkunum að Framsóknarflokkurinn gripi þessi nýmæli og að við sæjum hér á dagskrá á fyrsta þingdegi einmitt þau mál sem við gætum sameinast um að afgreiða.

Út af fyrir sig er hægt að þakka fyrir að það er svona pínulítið jákvætt skref, sem kann að hafa einhver áhrif einhvern tíma, að sjá annað mál á dagskrá en það varðar úrlausn gengislánamála en ekki skuldavanda heimilanna, ekki niðurfærslu verðtryggðra íslenskra lána og ekki afnám verðtryggingarinnar. Þau mál er bara hvergi að sjá á dagskránni.

Ástæðan fyrir því að maður hefur aðeins áhyggjur af því að sjá þessa forgangsröðun mála er að teflt er að minnsta kosti á tvær hættur fyrir nýja ríkisstjórn. Að fara af stað með því að uppfylla skattalækkunarloforð Sjálfstæðisflokksins um að afnema auðlegðarskatt, eins og þeir hafa lýst yfir og mun kosta tugi milljarða á kjörtímabilinu, um að lækka veiðigjaldið eins og hefur verið lýst yfir, og nú um þennan tiltekna skatt og síðan um allt það sem komið er á útgjaldahliðina. Og einhvern veginn telja menn að allt sé tilbúið og útfært í þeim efnum en eru ekki tilbúnir til þess að taka ákvörðun um að ráðstafa fjármunum í höfuðmál kosninganna. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að búið verði að eyða því svigrúmi sem kann að vera fyrir hendi þegar loksins allar 19 nefndirnar um skuldavandann og verðtrygginguna skila af sér.

Þess vegna hélt ég að Framsóknarflokkurinn mundi taka þessu góða boði stjórnarandstöðunnar og einfaldlega koma hingað inn með hin útfærðu mál þar sem forustumenn hans höfðu lýst því yfir að hægt væri að ráðast í þær aðgerðir þegar í sumar. Um ýmis úrræði sem lofað var eru einfaldlega til frumvörp og þau eru til hér í þinginu, við þurfum ekki að fara lengi yfir það. Það er þannig að tilbúin lyklafrumvörp liggja hér fyrir, það er ekkert annað en að ljósrita þau. Hugmyndir um afnám verðtryggingar liggja fyrir sem voru ræddar í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili þó að Sjálfstæðisflokkurinn reyndist ekki vera tilbúinn til að mynda þverpólitíska samstöðu um það. Og það var nefnd að störfum þá. Þau frumvörp eiga því ekki að vera neitt vanbúnari mál en það mál sem við erum að lesa um og eigum að ræða um hér.

Guð minn góður, virðulegir þingmenn, hvað er vanbúið mál ef ekki lækkun á sköttum sem fær slíka umsögn eins og það fær þegar ekki liggur fyrir nein heildaráætlun í ríkisfjármálum en ítrekaðar yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að gatið í ríkissjóði sé meira en þeir hugðu? Það er náttúrlega býsna vanbúið mál. En pólitísk ákvörðun hefur bara verið tekin um það að eyða 1,5 milljörðum á ári í þetta sem forgangsverkefni. Maður hefði auðvitað haldið að ákvarðanirnar um að ráðstafa fjármunum í forgangsverkefnið mundu lúta að skuldavanda heimilanna á þessu þingi vegna þess eins og ég segi, það var yfirlýst af okkar hálfu að við mundum greiða því leið. Ekki þar fyrir að við munum leggjast sérstaklega gegn afgreiðslu annarra mála, auðvitað munum við einfaldlega ræða þau í þinginu og fá um þau málefnalega umfjöllun í nefndum.

Ég verð að segja um þetta frumvarp með líkum hætti og félagi minn hv. þm. Össur Skarphéðinsson að eftir að hafa verið lengi bæði í sveitarstjórn áður og síðan hér á þinginu, m.a. mitt fyrsta kjörtímabil í fjárlaganefnd þingsins og sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta kjörtímabili, og eftir að hafa verið hér á vaktinni þegar landið hrundi, þá er það almennt mjög varasamt að stofna til útgjalda eða afsala sér tekjum án þess að gera um leið aðrar ráðstafanir á móti. Það er almennt ætlast til þess við rekstur til að mynda sveitarsjóða. Ég hygg að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi lært það af biturri reynslu að menn verði að setja í senn fram hugmyndir um tekjur og útgjöld eða þegar þeir gefa eftir tekjur hvar þeir ætli þá að skera niður. Það þýðir ekki að tala um að það að lækka virðisaukaskattsprósentuna á gistingu í landinu um helming muni tvöfalda komu ferðamanna til Íslands á örfáum mánuðum og þannig skila sömu tekjum. Það er augljóslega ekki þannig.

Auðvitað getur lág skattlagning í einhverjum greinum yfir lengri tíma skilað einhverjum árangri til aukningar, en augljóslega er þetta ákvörðun um að gefa frá sér tekjur. Það er kannski helst það samhengi að farið er af stað með því að fara í aukin útgjöld á fjölmörgum sviðum, í það að afsala sér tekjum á fjölmörgum sviðum, þegar um leið menn vita að ríkissjóður er í ár enn rekinn með verulegum halla, og vita líka hversu mikið lífsspursmál það er fyrir ríkissjóð, fyrir lánakjör atvinnulífsins í landinu, fyrir afnám gjaldeyrishafta, fyrir almenn lífskjör Íslendinga og atvinnusköpun í landinu að ná hallalausum rekstri á næsta ári, að skapa Íslandi þann trúverðugleika sem því fylgir.

Ástæðan fyrir því að maður er hugsi yfir þessu er að ég hef verið í sporum Framsóknarflokksins. Ég hef lagt af stað glaðbeittur í nýtt kjörtímabil í samstjórn með Sjálfstæðisflokknum, það var árið 2007. Ég get sagt nýjum þingmönnum Framsóknarflokksins, kannski sérstaklega, en þingmenn Sjálfstæðisflokksins mega einnig heyra það, að við höfðum líka býsna háar hugmyndir um allt það sem við gætum gert. Eitt af því sem við héldum að við gætum gert var að lækka þennan tilgreinda virðisaukaskatt einmitt úr 14% í 7%. Og mikið óskaplega vorum við ánægð með það. Hver er ekki ánægður með að geta staðið í þessum stóli og talað fyrir skattalækkunum? Hver vill ekki annars vegar tryggja öfluga velferð en síðan eins lága skatta og mögulegt er til að standa undir henni?

Við fluttum efnislega svipaða tillögu, ætli það hafi ekki verið á haustþingi 2007. En sá sem hefur lagt þannig af stað og upplifað það síðan jafn hraustlega og við fengum að upplifa það að ríkissjóður hafði ekki efni á því og að ríkissjóður og staða hans er undirstaðan fyrir allri lánastarfsemi til atvinnulífsins í landinu, allri fjármögnun bankakerfisins og lífskjara allra heimilanna í landinu, hann hefur lært að hér þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr. Þess vegna er að hluta til kallað eftir því að fá heildarmynd af þessu þegar stjórnarflokkarnir gefa út yfirlýsingar um að þeir ætli að lækka þennan skatt, þeir ætli að hætta að láta eignafólkið borga auðlegðarskatt, sem eru margir milljarðar á ári, þegar þeir lýsa því yfir að þeir ætli að lækka sérstaka veiðigjaldið, jafnvel verulega, og þeir ætli að stofna til hinna og þessara útgjalda. Þetta eru auðvitað bara pólitískar áherslur þessa stjórnarmeirihluta, allt í lagi.

Stjórnarmeirihlutinn leggur áherslu á að virðisaukaskattur verði ekki hækkaður á gistingu á hótelum og gistiheimilum. Ég verð að segja að ef nauðsynlega þarf að borga skatta finnst mér nú heldur skárra að erlendir ferðamenn greiði þá en venjulegt íslenskt launafólk. Meiri hlutinn leggur áherslu á að afnema auðlegðarskatt af ríkasta fólkinu í landinu. Hann leggur áherslu á að lækka sérstaka veiðigjaldið í útgerðinni þegar hagnaðurinn þar er meiri en hann hefur nokkru sinni verið fyrr í sögu Íslands. En þetta eru einfaldlega pólitískar áherslur.

Við köllum hins vegar eftir því að þær séu hluti af ábyrgri áætlun í ríkisfjármálum, að fyrir framan okkur sé heildarmynd um það með hvaða hætti skuldir, útgjöld og tekjur ríkissjóðs þróist á kjörtímabilinu með þessum pólitísku áherslum. Við teljum að við höfum lært það af reynslunni og eigum að hafa lært það í öllum flokkum að við þurfum að vanda sérstaklega til verka þegar kemur að ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála því að okkur Íslendingum hættir til að missa agann, freistumst til að skrifa gúmmítékkann, gefa aðeins út úr gleðibankanum. Þess vegna er ákaflega mikilvægt fyrir okkur, hvar í flokki sem menn standa, að menn séu með heildstæða áætlun um ríkisfjármálin með pólitískum áherslum sínum. Þá getum við bara deilt um hinar pólitísku áherslur, hvort rétt sé að lækka þennan skatt eða lækka hinn skattinn, af því að það er eitthvert plan í gangi. Það er búið að sýna fjárhagsáætlun. Og eftir því hljóta menn að kalla ef gerðar eru umtalsverðar breytingar hvort sem það er í fyrirtæki, félagasamtökum, sveitarfélagi eða hér í þinginu.

Það er sá skortur sem er tilfinnanlegur í þessari umræðu af því að sumum kann að þykja að 1,5 milljarðar séu ekki mikið á ári. En þegar hart er í ári geta 1,5 milljarðar verið gríðarlega mikið þegar ekki er í neinar skúffur að fara. Það sem skiptir máli líka er að boðað hefur verið frumvarp um lækkun á veiðigjaldi og það leggst við. Boðað hefur verið af formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra að auðlegðarskatturinn falli niður um áramótin, það eru nokkrir milljarðar á ári. Boðað hefur verið að ráðist verði í ýmis útgjöld og mörg þeirra styð ég af heilum hug. En er það ekki alveg ófullburða að því fylgi ekki heildaráætlun? Er ekki miklu meiri ástæða til að vera hér með skuldamálin í forgangi en þetta mál?