142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú einu sinni þannig að Alþingi setur lög og Alþingi hefur sett sveitarstjórnum mjög skýr lög um það með hvaða hætti þau skuli búa til fjárhagsáætlanir sínar og standa við þær og hvernig þeir þættir skuli vera, en Alþingi hefur aldrei sett sjálfu sér sams konar lög eða framkvæmdarvaldinu um fjárlögin. Það væri kannski þarft, af því að hv. þingmaður nefndi það, að áþekkar skyldur hvíldu á framkvæmdarvaldinu um framkvæmd fjárlaga og Alþingi eins og lögin sem hvíla á sveitarstjórnum þar sem er t.d. óheimilt að endurskoða fjárhagsáætlun til þess að lagfæra eitthvað sem miður hefur farið. Hér er það hægt með fjáraukalögum og síðan er aftur hægt að skoða það þegar gengið er frá ríkisreikningi. Þetta er allt öðruvísi hjá sveitarfélögum. Þar bera menn mun ríkari ábyrgð á áætlun sinni þannig að ég tæki heils hugar undir það ef Alþingi setti slík lög fyrir okkur sem afgreiðum hér fjárlögin og framkvæmdarvaldið til að fara eftir, þá værum við væntanlega betur stödd með ríkisfjármálin almennt en akkúrat núna.

Um það var ekki spurt. Ég spurði hv. þingmann og ég ítreka að fjárfestingaráætlunin sem samþykkt var hér í fjárlögum 2013 og tók til og átti að vera með hugsanlegum ágóða af sölu eigna upp á 22 milljarða og hugsanlegum ágóða af veiðileyfagjaldi upp á allt að 50 milljörðum. Þeir peningar voru ekki í hendi og það kom fram í fjárlagafrumvarpinu að þetta væri áætlað en menn settu hins vegar fjárfestingaráætlun sem gerði ráð fyrir fjármununum. Var það fullburða eða var það ófullburða, hæstv. forseti og hv. þingmaður?