142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála um hið fyrra, ég og hv. þingmaður og fyrrverandi skólastjóri og bæjarstjóri, það þarf sannarlega að auka aga og aðhald í ríkisfjármálum á Íslandi. Það er einfaldlega það sem við höfum lært af reynslunni og þingið á að gera sömu kröfur til sjálfs sín og það gerir til sveitarstjórna. Ég held að það sem við leggjum áherslu á í þessu sé að það fylgi heildaráætlun hugmyndum um útgjöld og tekjur sem nema milljörðum kr. á hvorn veginn.

Hvað varðar fjárfestingaráætlunina held ég að hún hafi sannarlega ekki verið ófullburða, þvert á móti. Annars vegar er ríkissjóður í mjög góðum færum til að taka út arð og losa um eignarhluti vegna þeirrar stöðu sem hann er í gagnvart viðskiptabönkunum, hins vegar var frá því gengið þannig að þær tekjur ættu að kosta fjárfestingaráætlunina, þ.e. það var algerlega afmarkað hvaða tekjur ættu að mæta þessum útgjöldum. Ef menn sækja ekki þann arð sem hægt er að sækja eða selja ekki þá eignarhluti sem hægt er að selja hafa þeir alltaf þá varaleið að endurskoða framkvæmdahraðann í áætluninni og útgjöldin í áætluninni í ljósi breyttra tekjuforsendna. Ég held að það sé út af fyrir sig bara kostur í fjárlagagerð að vera með hluti stillta þannig af að ef eitt gengur ekki eftir sé hægt að draga úr öðru á móti.