142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu ræddu stjórnarflokkarnir stöðuna sem blasir við íslenskum heimilum, enda er það hluti af stjórnarsáttmálanum að bregðast við. Í þingsályktunartillögunni sem nú er fram komin eru þau mál sett í ákveðin farveg. Þegar málið kemst á dagskrá gefst tilefni í þinginu til að ræða það í víðu samhengi og ég held að þingmenn allir, mér heyrist meira að segja þingmenn stjórnarandstöðunnar fagna því tilefni sem þá gefst til að ræða stöðu heimilanna og hvernig eigi að bregðast við henni. En ríkisstjórnin hefur sett á forgangslista sinn að bregðast sérstaklega við þeirri stöðu með öllum tiltækum ráðum.

Það kemur mér satt best að segja dálítið á óvart, en ég kveinka mér alls ekki undan því, að undir umræðu um þetta frumvarp sem er ekki mjög stórt í sniðum skuli vera farið í almenna efnahagsumræðu og umræðu um ríkisfjármálin í víðu samhengi. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þegar menn leggja til að skattar hækki ekki þarf að meta áhrifin af því, en það þarf ekkert síður að meta hvað við getum gert til að bregðast við þeim uppsafnaða og yfirstandandi vanda sem ríkissjóður er í vegna hallareksturs á yfirstandandi ári. Það er í raun og veru hlutfallslega miklu stærri vandi en sá sem menn eru að láta í skína að skapist út af þessu frumvarpi.

Staðreyndin er sú að ferðamönnum er enn að fjölga, gistinóttum erlendra og íslenskra ferðamanna er að fjölga. Það sýna tölur fyrir fyrsta ársþriðjung þessa árs þannig að (Forseti hringir.) tekjur af komu erlendra og íslenskra ferðamanna munu halda áfram að vaxa og það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim hluta.