142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri nálgun sem birtist í orðum hv. þingmanns um að menn séu að afsala sér tekjum virðist vera út frá því gengið að allar tekjur sem fyrirtæki og eftir atvikum einstaklingar í landinu afla sér séu með einum eða öðrum hætti eign ríkisins. Í hvert sinn sem þær eru ekki að fullu teknar til ríkisins sé ríkið að afsala sér þeim tekjum. Þannig sé aldrei hægt að lækka neina skatta eða falla frá áformum um að hækka þá án þess að í því felist afsal á einhverju sem tilheyrði ríkinu.

Við sem stöndum að baki frumvarpinu kjósum að líta öðruvísi á tekjustofna ríkisins. Við lítum þannig á að þeir spretti upp í atvinnulífinu og hjá einstaklingunum fyrir framtakssemi þeirra og ríkið geti síðan áskilið sér einhvern hluta í þeim tekjum. Það er því allt önnur nálgun sem býr að baki þessu frumvarpi og kannski er það hluti af þeirri orðræðu sem á sér stað í dag að við erum að nálgast viðfangsefnin með svo ólíkum hætti.

Hvernig á að bregðast við vegna skertra tekna sem af þessu leiðir miðað við áform fyrri ríkisstjórnar? Það kemur bara með í ríkisfjármálaáætlun fyrir næsta ár og til lengri tíma. Þetta mál, sem menn vilja vissulega og skiljanlega, vegna þess að það er á dagskrá, taka til sérstakrar umræðu og meta áhrifin af, nær varla að gára vatnið við hliðina á því hafi sem við eigum eftir að synda yfir til að brúa bilið í fjárlagagerðinni. Við erum að tala um fyrir yfirstandandi ár möguleg tekjuáhrif upp á 500 millj. kr. meðan stefnir í 30 milljarða halla. Það var reyndar kynnt þannig fyrir kosningar og í lok síðasta árs að nú væri ríkisstjórnin búin að ná endum saman (Forseti hringir.) en það munar um 30 milljarða í því samhengi.