142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[19:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Þetta hefur um margt verið mjög áhugaverð umræða og í sjálfu sér er það sem er kannski áhugaverðast við hana ekki yfirskrift frumvarpsins sem slíks eða það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur viljað láta umræðuna snúast um, og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur nokkrum sinnum komið að í andsvörum, að menn eigi að halda sig við kjarna málsins og fara ekki út um allar grundir, heldur er mikið umhugsunarefni að þeir sjálfstæðismenn sem hafa talað sjái þetta svona, því að hér hafa framsóknarmenn enn ekki talað, vegna þess að um er að ræða pólitíska kúvendingu, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra tali um að málið sé ekki stórt í sniðum, þetta sé lítið mál. Hér er um að ræða afskaplega táknrænt mál fyrir nýja ríkisstjórn. Þetta er ekki bara fyrsta mál, á þskj. 1, heldur er þetta mál sem markar í raun og veru nýtt upphaf hægri stefnu á Íslandi. (Gripið fram í.) Þess vegna er þetta frumvarp stórt í sniðum og þess vegna þarf að fara yfir samhengi hlutanna. Ég veit að sjálfstæðismönnum leiðist að tala um samhengi hlutanna, ég hef oft orðið þess vör vegna þess að sagan er þeim oft erfið, því að samhengi hlutanna dregur það fram sem var dregið upp fyrir okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ítrekað og með mjög skýrum orðum, þ.e. að ábyrgðarleysi, óráðsía og pólitísk lausatök á ríkisfjármálum leiddu okkur í svo alvarlegan vanda að engin ríkisstjórn hefur þurft að horfast í augu við slíkan — aldrei. Þessi mikli vandi stafaði ekki bara af pólitískum áherslum heldur af vinnubrögðum líka.

Virðulegur forseti. Við erum ekki bara að ræða einfalt mál um 14% eða 7%. Við erum annars vegar að ræða skattapólitík, muninn á hægri og vinstri í stjórnmálum, til hvers samneyslan er, til hvers samfélagið er, til hvers skattheimta er, til hvers velferðarkerfi er. Hins vegar erum við að ræða þau spor sem hræða í sögunni sem eru sporin um ábyrgðarleysi, ítrekað ábyrgðarleysi og lausatök í ríkisfjármálum. Það hefur því miður verið einkenni Sjálfstæðisflokksins hér um áratugaskeið og svo alvarlegt einkenni að um það hefur verið fjallað í rannsóknarskýrslum. Þess vegna er það kjarni umræðunnar hér, en ekki efnið sjálft, ekki endilega sú pólitíska kúvending sem snýst um muninn á hugsjóninni um jöfnuð og réttlæti annars vegar og hins vegar svokallað frelsi einstaklingsins sem er helsi þess sem undir verður.

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mál sem er meira að segja svo vanbúið, svo ábyrgðarlaust að skrifstofa opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu sjálfu, fjármála- og efnahagsráðuneyti hæstv. ráðherra, segir, með leyfi forseta:

„Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni“ — það er verið að tala um ríkissjóð, sameign okkar allra — „í sama mæli“ — þ.e. um 535 milljónir á þessu ári, 1,5 milljarða á því næsta — „og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.“

Hvað gerist svo þegar hæstv. ráðherra er hér ítrekað spurður um það? Hverjar eru þessar mótvægisaðgerðir? Hver er svo heildartalan með öllu hinu? Þá fara menn að yppta öxlum og tala eins og 30 milljarðar séu svakalegt mál en þessar 500 milljónir séu bara smámál. Hvað með öll hin loforðin? Hvað með sérstaka veiðigjaldið? Hvað með að afnema auðlegðarskattinn af þeim sem mesta peninga þéna í þessu landi? Það kostar líka og ábyrg efnahagsstjórn hlýtur að vera metnaðarmál nýrrar ríkisstjórnar, eða hvað? Hvenær hætta menn að yppta öxlum? Er það við 600 milljónir? Eða 700? Hvenær hætta þetta að vera smápeningar? Hvenær skipta þessir peningar nógu miklu máli til að hæstv. ráðherra láti sig það varða að hans eigin skrifstofa segir að það þurfi mótvægisaðgerðir?

Þegar hæstv. ráðherra er þýfgaður um þetta nógu lengi fara að koma svör sem hefur þurft að lesa út úr löngum setningum. Hann nefnir til dæmis fjárfestingaráætlun, hann nefnir reyndar útgjaldahliðina fyrst. Þá vil ég vita hvaða 535 milljónir á að taka á þessu ári og af hverju. Ég vil ekki bara vita það, þjóðin á rétt á því að vita það. Hér er nefnilega sest að völdum ríkisstjórn með mikið umboð, ríkt umboð frá almenningi, sterkan meiri hluta í þinginu, mikla tiltrú og væntingar almennings, söguleg kosningaloforð, sennilega Íslandsmet í kosningaloforðum, loforð sem ríkisstjórnin fékk atkvæðin út á 27. apríl. Forustumennirnir gáfu sér þrjár vikur í að ræða saman. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég hefði haldið að þá væri komið að einhverjum útfærslum.

Það að við skulum sjá hér við þessa umræðu — það er partur af þessu, þetta snýst um lausatök, snýst um ábyrgðarleysi — þingsályktunartillögu um það að forsætisráðherrann biðji Alþingi að biðja ríkisstjórnina að skipa hópa, þ.e. ríkisstjórnin biður Alþingi að biðja ríkisstjórnina að skipa hópa, marga hópa, skoða kosti og velta vöngum. Allt mikilvægt en hér er rætt um raunveruleg kosningaloforð sem viðkomandi flokkar fengu fylgi út á. Við munum standa hér vakt í því skyni að kalla eftir efndum.

Fjárfestingaráætlunin sem hæstv. ráðherra nefndi hér sem möguleika í því að draga saman útgjöld ríkisins er í sjálfu sér tilefni til heilmikillar umræðu vegna þess að þar liggur áhersla á rannsóknarsjóði, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og vegagerð. Þá er spurt: Hvað stendur til? Hvar á að skera? Virðulegur forseti. Tökum bara þetta eina atriði, sem er 500 milljónir kr. á ári í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, er það nálægt þeirri tölu sem verið er að tala um að taka hér niður af tekjum ríkisins á þessu ári. Til hvers er þessi sjóður? Til hvers er þetta framlag? Það er til að verja landið fyrir einmitt þessari atvinnugrein, tryggja að landið okkar beri allan þennan fjölda ferðamanna og að landið okkar glati ekki verndargildi sínu og aðdráttarafli til þess að nákvæmlega þessir sömu ferðamenn geti komið hingað og vilji það.

Ég kalla því líka eftir samhengi hlutanna þegar við erum að tala um ferðaþjónustuna. Þar verðum við líka að tala um samhengi hlutanna. Það er ekki eingöngu í þessu efni, það er að segja í umræðunni um ríkisfjármálin almennt, harðri kröfu stjórnarandstöðunnar um það að menn taki ábyrgð á tillögum sínum, heldur líka að samhengi hlutanna sé virt og kannski ekki síst af þeim flokkum sem eiga erfiða sögu að því er varðar óráðsíu í ríkisrekstri, reglubundið meira frávik frá fjárlögum ár eftir ár eftir ár. Þetta aðhald verður fyrir hendi vegna þess að það er á ábyrgð okkar allra. Það er líka á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að gæta þess að farið sé af varfærni og ábyrgð með sameiginlegar eignir almennings. Við getum nefnilega ekki farið með þessa peninga eins og við eigum þá sjálf. Við þurfum að fara þannig með þá að okkur sé trúað fyrir þeim, að við sýnum þeirri ábyrgð sóma, að við ypptum ekki öxlum þegar talað er um 535 milljónir, að okkur finnist það skipta máli þegar fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir, enn með leyfi forseta:

„Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs“ — hvaða markmiðs? — „um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.“

Þannig er það og þannig á það að vera, viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.

Virðulegur forseti. Við getum auðvitað staldrað hér sérstaklega við kjarna málsins sem er efni frumvarpsins um það hvort þessi tiltekna atvinnugrein sé til þess bær að leggja samfélaginu lið með sköttum eins og aðrar fullburða atvinnugreinar gera og gera með gleði. Það er mín skoðun að ferðaþjónustan eigi að gera það, það sé mikilvægt fyrir þroska og framgang þeirrar atvinnugreinar að hún sé með í því að móta samfélag, leggja því til. Hins vegar hef ég skilning á því að við getum verið ósammála um þetta því að þarna erum við að tala um pólitískar áherslur, mismunandi útgangspunkta í því hvaðan tekjur ríkissjóðs eiga að koma, hversu háar þær eiga að vera o.s.frv. Stundum erum við hreinlega að tala um muninn á hægri og vinstri. Það er bara gott og það er hollt. Við eigum auðvitað að ræða miklu meira um það, um stóru línurnar og prinsippmálin í stjórnmálum. Við gleymum því stundum í slagsmálum sem eru minni. En ég er þeirrar skoðunar að fullburða atvinnugrein eigi að taka þátt. Hún er gríðarlega stór, hún er vaxandi. Það þarf að byggja upp innviðina. Það þarf að styðja við viðkvæmar náttúruauðlindir og náttúruperlur, en þegar tillögur eru lagðar fram af slíkri léttúð sem hér er gert þá dugar ekkert annað en að veita öflugt viðnám.