142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var kunnugleg pólitík vinstri grænna: Við stöndum fyrir jöfnuð og réttlæti, þið standið fyrir frelsi einstaklings, helsi þeirra sem undir verða.

Kosið var 27. apríl. Ef þetta eru hægri og vinstri gildin höfnuðu kjósendur vinstri gildum, það er ósköp einfalt. Fólkið í landinu kaus að hafa ekki lengur við stjórnvölinn og meiri hluta á Alþingi leiðir Vinstri grænna og Samfylkingar að þeim markmiðum sem þjóðin vill að stefnt sé að, skuldavanda heimila, öflugu atvinnulíf, sem er forsenda velferðar. Fólkið í landinu kaus að hafna aðferðum Vinstri grænna og Samfylkingar í þeim málum. Þannig er staðan.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir talar um mótvægisaðgerðir. Ég ætla að nefna eitt sem hægt væri að gera einn, tveir og þrír og kostar 500 milljónir á þessu ári og kannski að jafnaði 130–180 milljónir á næstu árum. Það var sú ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að setja Náttúruminjasafnið í Perluna, afhenda Reykjavíkurborg um 500 milljónir til þess að auðvelda henni að kaupa Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur og leggja síðan að jafnaði 130–180 milljónir í að reka það. Þegar það var samþykkt í fjárlögum átti það að standa undir sér. Síðan þegar fjárlögin voru klár kom hæstv. þáverandi menntamálaráðherra inn með annað frumvarp sem kallaði á 130 millj. kr. rekstur í það dæmi árlega. Þar má skera á móti því (Forseti hringir.) sem hér er. Þetta hefur tekjur, hitt voru útgjöld.