142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú fer að hitna í kolunum. Það er alveg einlæglega afstaða mín að mjög mikilvægt sé að fólk hafi ólíkar stjórnmálaskoðanir, en mér finnst mikilvægt að tekist sé á um hugmyndafræði og ég vil endilega taka þátt í sem flestum umræðum af því tagi þar sem við erum að takast á um grundvallaratriði og hugmyndafræði.

Af því að hv. þingmaður nefnir enn Náttúruminjasafn og er ósátt við niðurstöðuna varðandi Perluna ætla ég svo sem ekki að fara út í þá umræðu hér, enda gefst ekki tími til þess, hvaða húsnæði ætti að verða fyrir valinu, staðsetning eða nýbygging eða hvað það er. En af því hv. þingmaður nefndi þetta sem lausn, sem mótvægisaðgerð gagnvart því frumvarpi sem er til umræðu, mundi lausn hv. þingmanns væntanlega kosta eitthvað þannig að kannski væru allar þessar 500 milljónir ekki alveg til skiptanna.

Ég vil segja vegna umræðunnar almennt um samskiptin inni á þinginu, væntingar um að við séum að snúa öllu til betri vegar, að við höfum öll væntingar til þess. Ég held að við höfum öll ákveðinn metnað til þess að gera betur, en það verður að virka í báðar áttir þannig að samstarf og skilningur og sveigjanleiki verður að vera í báðar áttir. Gott og uppbyggilegt starf í þinginu byggir ekki bara á tillitssömum stjórnarmeirihluta heldur líka á ábyrgri stjórnarandstöðu þannig að við höfum einsett okkur að sýna þinginu meiri virðingu heldur en stjórnarandstaðan gerði á síðasta kjörtímabili.