142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:50]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugmynd um hvort ferðaþjónustan hefur bætt þessu inn í sín verð eða hvernig hún hefur verðlagt þetta. Þegar menn ákvarða verð á einhverju er það ósköp einfaldlega þannig að neytandinn veit sjaldnast hvað þjónustan kostar, hann veit hvað hann borgar fyrir hana. Hins vegar getur sá sem verður var við verðhækkanir borið þær saman við önnur lönd. Hvað ég held um verðlagningu skiptir því ekki meginmáli, en talað er um það í skýrslu Hagfræðistofnunar að verðteygni sé u.þ.b. mínus 0,55, 0,6 þannig að 1% hækkun á þjónustu skilar sér í 0,6% samdrætti í þjónustukaupum. Þetta er það sem liggur í skýrslunni.

En hvað ferðaþjónustan hefur verðlagt veit ég ekki, ég er ósköp einfaldlega að miða við að kaupandinn horfir í það hvað hann er að borga, við erum að keppa við önnur lönd og við erum að flytja út þjónustu.