142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[20:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, frumvarpi sem í umræðum á Alþingi hefur gjarnan verið kallað frumvarp um flýtimeðferð.

Með frumvarpi þessu er lagt til að í lögum um meðferð einkamála verði sett tímabundið ákvæði sem kveður á um að varði ágreiningur í dómsmáli lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjör slíkra skuldbindinga skuli hraða meðferð slíks máls fyrir dómstólum.

Við þekkjum auðvitað öll í þessum sal og aðrir sem á hlýða ástæður slíks frumvarps. Það hefur verið flutt hér áður í aðeins breyttri mynd, en ástæðan fyrir framlengingunni núna er augljós því að þrátt fyrir að niðurstöður dómstóla undanfarin ár hafi verið fordæmisgefandi fyrir mál er upp hafa risið um lögmæti fjárskuldbindingu sem um ræðir í frumvarpinu eru enn ýmis ágreiningsatriði óleyst og mikilvægt er að niðurstaða í þeim málum fáist hið allra fyrsta.

Er því lagt til í frumvarpi þessu að þau mál þar sem ágreiningur er um lögmæti gengis- eða vísitölutryggingar skuldbindinga eða uppgjörs slíkra skuldbindinga fái hraða meðferð í gegnum dómskerfið. Í þeirri heimild felst, eins og kemur fram í greinargerð, að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á það bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.

Það er brýnt, herra forseti, að niðurstaða fáist sem fyrst í mál sem leyst geta úr óvissu sem enn ríkir að nokkru leyti í málum er tengjast uppgjöri skulda heimilanna. Er því nauðsynlegt að veita, eins og ég nefndi áðan, dómurum styrka stoð til þess að taka slík mál til meðferðar og leysa úr þeim á skjótan hátt og eins hratt og mögulegt er.

Þessi aðgerð er þó fyrst og síðast mikilvæg fyrir fólkið í landinu, fyrir almenning í landinu og þá sem standa annaðhvort frammi fyrir slíkum málum nú eða geta þurft að standa frammi fyrir slíkum málum síðar. Sú vissa að þau mál fái skjóta meðferð þarf að vera klár og skýr. Hún þarf að vera til staðar. Það skiptir miklu máli. Þess vegna er málið lagt fram á þessum tímapunkti.

Virðulegi forseti. Eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal unnið að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Er hér um að ræða þann mikilvæga þátt að eyða verður óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum. Frumvarp þetta er því liður í að fullnægja því markmiði sem kynnt er í stjórnarsáttmálanum, en það er einnig mikilvægur liður í þeirri þingsályktunartillögu sem hæstv. forsætisráðherra kynnti í stefnuræðu sinni í gær og mikilvægur þáttur í því að forgangsraða mjög ákveðið og mjög eindregið á þessu sumarþingi í þágu skuldavanda heimilanna.

Miðað við þær umræður, hæstv. forseti, sem verið hafa í þingsalnum og einnig í aðdraganda þess að þing var sett, vænti ég að um málið náist góð og almenn sátt á þessu þingi. Ég treysti því að þingmenn líkt og almenningur viti að það er mikilvægt að setja þessi mál í þennan farveg. Margt hefur verið vel gert fyrir þennan tíma. Mörg þeirra mála sem voru í óljósri stöðu fyrir þetta þing og á undanförnum árum hafa auðvitað verið sett í farveg. En það er engu að síður mikilvægt að við sameinumst um að tryggja að þau sem eftir eru fái örugga, hraða og góða meðferð.

Þess vegna óska ég eftir því, virðulegur forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að þessari umræðu lokinni og síðan til 2. umr.