142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekkert nema gott um þetta þingmál að segja og ég kem til með að styðja það þó að ég verði að játa að við þessa umræðu núna er mér ekki alveg eins ljóst hvað í frumvarpinu felst og ég taldi áður. Annars vegar erum við að tala um að forgangsraða í dómskerfinu. Hins vegar er sagt að það sé ekki raunin, hraða eigi málsmeðferð. Ég skildi málið upphaflega þannig að það væri verið að hvetja dómstólana til þess að hafa alla fresti sem skemmsta og hraða framgangi málanna. Þá erum við ekki að forgangsraða á kostnað annarra mála. Ég er ekki að meina að þetta sé neins konar útúrsnúningur því að að grunni til tel ég vera til góðs að reyna að hraða þessum málum, að finna leiðir til að hraða þeim í gegnum dómskerfið. Mér brá hins vegar örlítið við það þegar ég heyrði hæstv. ráðherra segja að þetta mál endurspeglaði forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hve mikilvægt það væri að fá þetta mál fram í þinginu akkúrat núna.

Nú vill svo til að það er réttarhlé í landinu. Dómstólarnir eru í fríi. Þeir hafast ekki að. Þeir koma ekki saman að nýju fyrr en í haust, í september. Þá taka þeir til við þessi mál.

Annað er að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef haft hefur ekki staðið á dómstólunum við afgreiðslu mála af þessu tagi. Það hefur staðið á málsaðilum sem eru iðulega fjármálastofnanir eða aðrir aðilar sem að slíkum málarekstri koma. Ég hef grun um að sumar fjármálastofnanir hafi hreyft sig allt of hægt vegna þess að þær hafi ekki viljað fara með málið fyrir dóm og þar sé vandinn, ekki hjá dómstólunum.

Hæstv. ráðherra kemur og mælir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og segir að hér sé kominn spegill á þá ríkisstjórn sem hefur verið mynduð, í þeim spegli sjáum við hvernig hún forgangsraði. Það er vísað í þingsályktunartillöguna sem felur það í sér að ríkisstjórnin ætlar að beina því til Alþingis að það samþykki að fela ríkisstjórninni að framfylgja kosningaloforðum sínum. (Gripið fram í.) Menn héldu sumir að það væri verið að gera grín að Alþingi eða þjóðinni þegar hæstv. forsætisráðherra boðaði í stefnuræðunni hér í gærkvöldi að ríkisstjórnin ætlaði að fara þess á leit við Alþingi að það samþykki tillögu þess efnis að ríkisstjórnin færi að kosningaloforðum sínum. Við héldum að við fengjum tillögu ríkisstjórnarinnar inn á okkar borð, tækjum þær til málefnalegrar umfjöllunar í þessum þingsal og síðan í þingnefndum og tækjum afstöðu til þeirra, en ekki að hin leiðin yrði farin eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir komst að orði í gær, að við fengjum bara nefndir en engar efndir.

Ég hefði haldið, ef ríkisstjórninni er alvara í því að taka á skuldamálunum, að hún yrði að eyða þeirri óvissu sem hún hefur skapað með þessari aðkomu að þeim málum. Hún verður að eyða þeirri óvissu sem hún hefur skapað hjá íslenskum heimilum. Því var lofað í aðdraganda kosninganna að ráðist yrði í lækkun á höfuðstóli lána. Það voru loforðin og fólk vildi ganga að því gefnu að ríkisstjórnin mundi efna þessi loforð. Nei, í stað þess að eyða óvissunni hjá heimilunum í landinu er okkur sagt núna að forgangsröðunin birtist í því að lögbinda það að dómstólarnir geri það sem þeir hafa verið að gera á undanförnum mánuðum, að reyna að hraða framgangi þessara mála. Það eru alla vega þær upplýsingar sem ég hef haft og að vandinn liggi allt annars staðar. Því miður.

Þess vegna þætti mér fróðlegt að fá það fram við þessa umræðu, og ég efast ekki um að margir eiga eftir að taka þátt í henni, hvað það er sem ríkisstjórnin vill leggja af mörkum til þess að koma til móts við heimilin. Hvernig á að lækka höfuðstól lánanna? Hvað á að gera? Fáum við einhverjar tillögur (Gripið fram í.)þess efnis hér á vorþingi? Fáum við þær (Gripið fram í.)þannig að nefndir geti unnið með þann pakka í stað þess að bjóða okkur upp á það eitt að binda í lög að dómstólarnir geri það sem þeir hafa alltaf gert, að reyna að hraða þessum málum þegar þeir koma úr fríi í september eftir réttarhlé? Er þetta ekki pínulítið rýrt? Er ekki pínulítið rýrt og ósannfærandi að tala um þetta sem forgangsröðun ríkisstjórnarinnar til að taka á skuldavanda heimilanna? Ég bara spyr. Gera menn ekki meiri kröfur til sjálfra sín og til þessarar ríkisstjórnar en þetta? Er þetta músin sem verið er að kynna, hleypa hér lausri í þingsalnum? [Hlátur í þingsal.] Eru þetta málin sem verið er að boða? (Gripið fram í: Engan dónaskap.) Þetta er enginn dónaskapur, ég er bara forviða. Fólk spyr um allt land: Er það svona sem á að hefja þessa vegferð? Er það svona sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætlar að hefja þessa vegferð?

Margar nefndir. Engar efndir. Engar efndir enn þá.