142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. innanríkisráðherra velfarnaðar og farsældar í starfi um leið og ég óska henni til hamingju með jómfrúrræðuna.

Það hefur komið fram í málflutningi og aðdraganda þessa sumarþings að við í stjórnarandstöðunni og Samfylkingunni munum standa að öllum þeim málum sem geta leitt til lausna varðandi skuldavanda heimilanna og að liðka fyrir þannig að þau mál nái fram að ganga sem menn hafa lofað í kosningabaráttunni til hagsbóta fyrir heimilin.

Því fagna ég að hér skuli vera komið fram eitt af þeim tíu atriðum sem nefnd hafa verið í tengslum við þingsályktunartillögu sem á að leggja fram núna í vikunni þó að, eins og kom fram í fyrri ræðu, það skjóti svolítið skökku við og sé svolítið sérkennilegt að þetta skuli vera það fyrsta. Í öðru lagi vakti það athygli manns að það er mjög óvenjulegt, eins og hæstv. forsætisráðherra vakti athygli á, að ríkisstjórnin skuli ætla að segja þinginu fyrir verkum og biðja það um að fela ríkisstjórninni að gera hluti. Það hefði verið eðlilegra að við hefðum fengið tillögurnar svipað og gert er með þetta mál inn í þingið og hefðum þá getað tekið afstöðu til þeirra málefnalega og reynt að bæta úr eftir því sem við á eins og þingi er ætlað að vinna.

Það stendur í athugasemdum með lagafrumvarpinu að leysa þurfi hið fyrsta úr þeirri óvissu sem enn ríkir í málum sem tengjast uppgjöri skulda heimila og fyrirtækja. Við fögnum því auðvitað. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við reynum að hjálpast að við að hraða þessum málum hver sem ástæðan er fyrir því að þau hafa tafist. Við skulum ekki fara í kringum það að búið er að gera ótal margar tilraunir í því. Í upphafi var reynt að segja fyrir um hvernig ætti að taka á ákveðnum málum og hafa þannig áhrif á hvernig með mál skyldi farið. Fyrri ríkisstjórn og Alþingi gerði á þeim tíma tilraunir til að setja lagasetningar aftur í tímann til að reyna að koma með einhverjar skýringar á hvernig ætti að taka á málum. Í öllum tilfellum var það rekið til baka. Hæstiréttur dæmdi með öðrum hætti. Það sem var verra var að héraðsdómur dæmdi oft á einn veg og Hæstiréttur á annan. Það varð til þess að meira og minna höfum við orðið að treysta á dómstólana til að fá niðurstöður í öllum þessum málum. Það leiddi síðan til þess að menn settu umboðsmann skuldara í það hlutverk eða réttara sagt tók umboðsmaðurinn það hlutverk að sér með fjármálafyrirtækjum og fleirum að reyna að kortleggja nákvæmlega hvaða svör vantaði til að hægt yrði að ljúka þessum málum og koma þeim eins hratt og hægt væri í gegnum þingið svo að við fengjum svör fyrir heimilin, fyrir fjármálastofnanirnar og fyrir þá sem eru að vinna úr skuldunum hvernig ætti að taka á þeim.

Nú langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra af því að ég hef ekki haft tækifæri til að skoða það en fæ þá væntanlega svör, ef ekki núna, í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hver er staðan í þessum málum? Ég held að þau hafi verið tíu eða tólf sem lagt var af stað með á sínum tíma og það nýjasta sem maður heyrði í fjölmiðlum var að umboðsmaður skuldara sagði að með nýjustu dómsmálunum væru komnar það skýrar línur að nú þyrfti fyrst og fremst að reka á eftir fjármálafyrirtækjum að vinna úr málum, það þyrfti ekki frekari dómsmál varðandi helstu ágreiningsefnin. Nú veit ég ekki hvort þetta er rétt. Ég veit ekki hvort hæstv. innanríkisráðherra hefur svörin en ég bið hana að svara þessu alla vega í nefndinni þegar hún kynnir málið eða fulltrúar ráðuneytisins væntanlega næsta fimmtudag.

Annað er líka forvitnilegt af því að hér er verið að tala um að beina þessu til dómstóla. Mér finnst skipta máli hvaða væntingar menn eiga að hafa varðandi þessi mál vegna þess að eitt af því sem við höfum verið gagnrýnd fyrir eru falskar væntingar, væntingar um úrlausnir á einhverjum tilteknum tíma eða fljótlega. Hvað mun breytast? Nú hefur komið fram að réttarhlé er í gangi en þegar menn koma saman að nýju, hvaða væntingar megum við þá gera til dómstólanna og þeirrar málsmeðferðar sem hérna er tekin fyrir? Hvaða áhrif mun það hafa varðandi flýtingu?

Fram kom í viðtali — nú er ég ekki það vel undirbúinn að geta vitnað í nöfn — í fjölmiðlum, fljótlega eftir að þetta kom fram, að dómstólar mundu ekki breyta sínum tíma eða hraða nema hvað varðaði hugsanlega undirbúning mála. Þá kemur aftur að því sem fyrrverandi innanríkisráðherra benti á að það hefur verið einkenni á mörgum þessum málum að málsaðilar hafa verið að þæfa málin í dómstólunum. Hvernig er þá aðkoma Alþingis eða hæstv. innanríkisráðherra að þeim málum þar sem við megum ekki hafa afskipti af dómsvaldinu, skiljanlega, nema með almennum reglum sem farið er eftir?

Það eru svona spurningar sem vakna vegna þess að miklar væntingar eru til þess sem við erum að vinna hér. Þetta er fyrsti liðurinn af tíu í þingsályktunartillögu sem þinginu er ætlað að búa til fyrir ríkisstjórnina. Hér er þá komið fullskapað mál sem er a.m.k. fullburða púsl inn í myndina. Það mun ekki standa á okkur að reyna að finna lausnirnar með hæstv. ríkisstjórn, en ég held að það sé mikilvægt að við fáum svörin við því í hverju flýtingin felist, hvaða væntingar megi gera, hverju þetta muni breyta, hvað standi út af akkúrat í augnablikinu af því sem þarf að svara til að við getum fylgt málum betur eftir. Er einhver leið sem hefur komið fram í umræðunni í þessari lotu, eftir það sem á undan er gengið, um það hvernig hægt er að hafa áhrif? Ég held að við deilum öll þeirri skoðun að við þurfum að hafa áhrif á lánastofnanir til að þær fari nú að reikna af miklu meiri krafti en hingað til. Hvaða úrræði höfum við til þess?