142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[21:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 4, sem er 4. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er efnislega byggt á frumvarpi sem flutt var á 141. löggjafarþingi, en var ekki útrætt þá. Er það nú endurflutt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem meiri hluti atvinnuveganefndar þess þings lagði til að gerðar yrðu á frumvarpinu.

Lagt er til að stærðarmörk krókaaflamarksbáta verði færð í 15 metra hámarkslengd og minni en 20 brúttótonn. Það gefur möguleika á um 4,10 metra breiðum krókaaflamarksbátum þegar miðað er við meðaldýpt þeirra, 1,85 metra. Lagt er til að framkvæmd stærðarmælingar krókaaflamarksbáta verði breytt til samræmis við evrópskar mælireglur á stærð báta. Með þessu verður því við komið að allt rúmmál bátanna kemur inn í mælingar þeirra en á því hefur verið misbrestur.

Ég átta mig á því að um þessa tillögu eru skoðanir nokkuð skiptar. Annars vegar eru þeir sem telja að verið sé að tefla í tvísýnu krókaaflamarkskerfinu og þessi breyting á stærðarmörkum hvetji til aukinnar samþjöppunar. Hins vegar eru þeir sem telja að taka verði tillit til tækniþróunar og búa verði sjómönnum vinnuskilyrði er taki mið af þeirri tækni sem þegar er fyrir hendi í dag og betri aðstæðum fyrir meðferð afla en einnig að núverandi séríslensk mæliaðferð sé fyrir löngu búin að sýna sig að vera ómöguleg með öllum þeim skápum og útskotum er henni fylgja.

Um þetta mál fór fram mikil umræða á fundum atvinnuveganefndar sl. vor. Ég legg til að nefndin skoði áfram þetta mál sérstaklega eins og hún gerði á síðastliðnu þingi og fari yfir.

Jafnframt eru í þessu frumvarpi lagðar til tvær breytingar á ákvæðum um strandveiðar, annars vegar að Fiskistofu verði heimilt að stöðva strandveiðar með auglýsingu í Stjórnartíðindum í stað ráðherra með reglugerð áður. Stöðvun strandveiða er gerð á grundvelli upplýsinga um aflamagn sem landað hefur verið á einstökum svæðum og er eingöngu byggð á upplýsingum frá Fiskistofu. Breytingin er því í takt við eðlilega framkvæmd og minnkar flækjustig stjórnsýslunnar. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að setja nánari ákvæði um eignarhald á fiskiskipum á strandveiðum til að koma í veg fyrir sami aðili geri út fleiri en einn strandveiðibát.

Auk þess er gerð tillaga að breytingum á viðurlagaákvæðum sem felast í því að sé fiskiskip svipt leyfi til veiða þar sem leyfi til veiðanna er tímabundið og sviptingin varir skemur en gildistími leyfisins nær til eigi eftirstöðvar sviptingarinnar við gildistöku á næsta heimilaða fiskveiðitímabili bátsins.

Að lokum er gerð tillaga til breytinga á lögum um gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Breytingin felur í sér heimild Fiskistofu til að leggja gjald á ólöglegan sjávarafla í fisktegundum sem ekki hafa verið aflahlutdeildarsettar en sæta takmörkun á veiðum, en sú gjaldtökuheimild hefur ekki þótt nægilega skýr.

Virðulegi forseti. Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið. Að öðru leyti vil ég vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.