142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[21:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur flutt frumvarp um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.

Ég er sammála 1. gr. og hefði viljað að sú tillaga hefði verið samþykkt á síðasta þingi en því miður gafst ekki tóm til þess. Þessi tillaga er sett þarna fram en er þó með ákveðnum spurningum inni og líka ákvæðum í greinargerð um að hv. atvinnuveganefnd fari betur yfir þessa þætti. Það munum við auðvitað gera og þá sérstaklega hvað varðar þessa 15 metra og 20 tonnin sem eru höfð þar aftan við, til að koma í veg fyrir að menn breikki bátana óeðlilega mikið — ég segi ekki að þeir verði vonandi aldrei 15 sinnum 15 en það gæti orðið dálítið skrýtið byggingarlag ef ekki er hámark þarna fyrir ofan hvað varðar tonnin. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu þá er þetta breyting sem gerð er á þessum lögum og er þá önnur breytingin; áður var þetta í 6 tonnum.

Eins og hæstv. ráðherra gat um var mikil umræða um þetta í hv. atvinnuveganefnd á síðasta þingi í tengslum við frumvarp sem þáverandi atvinnuvegaráðherra flutti en náðist ekki að klára. Ég var því miður ekki í nefndinni þegar málið var í vinnslu þar, ég var þá fjarverandi vegna veikinda, en í lokin þegar það mál var komið út var þetta rætt einu sinni ef ekki tvisvar í nefndinni. Ég gat ekki heyrt annað en að um þetta væri almenn sátt, að mikill meiri hluti nefndarmanna styddi þessa breytingu.

Eftir vandlega íhugun og lestur á þeim umsögnum sem þar voru lagðar fram og skoðun á því hvernig þetta er gert í dag — menn eru með alls konar tilfæringar við að hafa þetta innan þeirra marka sem nú gilda; settar eru ýmiss konar svalir, eins og það er kallað, og kassar og síðustokkar, sem ekki reiknast með inn í mælinguna, að maður tali nú ekki um skutgeyminn sem hefur ekki talist inni í skráningarlengd. Það hefur leitt til þess að sumar útgerðir hafa lokað þessum skutgeymum án vitundar Siglingastofnunar sem er alvarlegt mál. Við viljum hafa það þannig að í gögnum Siglingastofnunar séu allar upplýsingar réttar og sem nýjastar um viðkomandi skip. Ef eitthvað kemur fyrir á að vera hægt að fletta því upp og allar breytingar eiga að vera komnar þar inn.

Ekki má heldur gleyma því að tæknin hefur þróast, henni hefur fleygt fram við byggingu þessara báta. Bátarnir hafa líka í nokkur ár verið með línubeitningavél um borð sem tekur mikið pláss. Með þeirri stækkun sem hér er lögð til gefst betra pláss fyrir mannskapinn að vinna, að ekki sé talað um ýmislegt annað sem þar vantar pláss fyrir eins og skolunarkar, svo að eitthvert dæmi sé tekið sem nefnt var í umfjöllun nefndarinnar á sínum tíma.

Það lagt í hendur nefndarinnar að fara betur yfir þetta og komast að niðurstöðu um hvernig þetta verður nákvæmlega gert. Ég get ekki látið hjá líða að óska hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með að leggja fram sitt fyrsta frumvarp og vísa þar beint í reglur Evrópusambandsins. Bragð er að þá barnið finnur. Það er ýmislegt hægt að sækja til Evrópusambandsins, sækja bara reglur og setja þær hér beint inn. Það er mikill myndarbragur að því að varaformaður Framsóknarflokksins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ganga í þá smiðju og setja þetta hér fram.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að klára aðildarviðræðurnar og leyfa þjóðinni að kjósa um hvort við eigum að ganga í það kaupfélag eða ekki. Meiri hlutinn mun ráða því. Ef við göngum í það þá getum við haft áhrif á þær reglur sem síðar eru settar. Ég sé að hv. formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, brosir breitt og er örugglega sammála þessu líka. Það mun án efa liðka mjög fyrir vinnu í nefndinni að sótt sé í smiðju Evrópusambandsins til að ljúka þessu máli sem hefur verið baráttumál okkar beggja lengi.

Hvað varðar aðrar greinar frumvarpsins þá er það líka til bóta að setja þar inn breytingu á reglum um strandveiðar, þ.e. að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar með auglýsingu þegar viðmiðunarafla er náð, að það sé ekki gert með tilkynningu frá ráðuneytinu; mig minnir að það hafi gleymst einu sinni í fyrra á svæði A. Við nefnum engin nöfn í því sambandi en það gleymdist að tilkynna í útvarpinu og þeir á svæði A fengu einn aukadag, ef ég man rétt, og voru mjög kátir með það. Þann daginn gleymdist að hringja úr ráðuneytinu tveimur tímum fyrir lestur útvarpsauglýsinga til að tilkynna það. Það er miklu betra að Fiskistofa sjái um þetta, hún fylgist með aflatölum og gerir þetta eins og hér er gert og áður hefur verið rætt.

Hvað varðar heimildir Fiskistofu til leyfisveitingar vegna grásleppu- og strandveiða þá verð ég að segja að ég er sammála í þeim efnum. Ég get ekki verið sammála því að ef menn brjóta af sér síðasta dag ágústmánaðar fyrnist það brot 1. september, að þann dag hefjist allt upp á nýtt og enginn þurfi að svara fyrir það. Þarna helst refsingin, ég veit ekki nákvæmlega hvaða orð er notað í greinargerðinni sem fylgir, yfir kvótaárin, brotið fyrnist ekki. Ég held að það sé líka til bóta. Tökum umferðarlögin sem dæmi. Ef menn keyra á 110 kílómetra hraða á ákveðnum vegi en brotið fyrnist svo næsta dag á öðrum vegi, það gengur ekki upp, þetta er tæknilegs eðlis og allt til bóta.

Virðulegur forseti. Þetta er það sem ég vildi einna helst nefna hvað varðar umrætt frumvarp sem kemur til atvinnuveganefndar þar sem ég á áfram sæti. Ég get ekki sagt annað en að ég hlakka til að takast á við að ljúka vinnu við það. Mér sýnist, og ég trúi ekki öðru, að um það sé töluvert mikil sátt.