142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[22:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum málefnalega umræðu um frumvarpið og þakka jafnframt góðar undirtektir við það.

Varðandi það sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði og var með svona létt skens um að hér væru komnar inn ESB-reglur, þá er sama hvaðan gott kemur. Ég held reyndar að þetta séu svokallaðar samevrópskar reglur af alþjóðlegu tagi en það breytir engu. Ef þær eru góðar og skýrari og einfaldari en það kerfi sem við höfum búið við er sjálfsagt að skoða þær.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom fram með gagnrýni á frumvarpið, en það er vissulega byggt á máli sem áður var lagt fram eins og ég kom inn á í framsögu minni, en að hennar mati skortir ýmislegt í þetta frumvarp. Það er svo sem engin tilviljun, það er komin ný ríkisstjórn sem hefur dálítið aðra sýn. Ein ástæða þess að frumvarpið sem lá fyrir síðasta þingi kláraðist ekki var auðvitað sú að ágreiningur var um nokkur atriði í því. Aðalvandræðagangurinn var samt eiginlega að klára stækkunina á krókaaflamarksbátunum, það stóð í þinginu. Ég held að stór meiri hluti hafi verið fyrir því í þinginu en ekki endilega samstaða innan fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, ekki allra. Þess vegna fagna ég mjög þeirri málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram og treysti því að nefndin taki þetta til efnislegrar skoðunar.

Ég ætla aðeins að minnast á þann þátt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á varðandi byggðakvótann. Við ræddum í lok síðasta þings að nægur kvóti væri til í núverandi kerfi og að menn teldu að hægt væri að nýta þær heimildir. Ég treysti því að hægt sé að skoða það í það minnsta með jákvæðum hætti, með tilliti til þeirra aðgerða sem ég tek undir með hv. þingmanni að geta verið nauðsynlegar á stundum.

Það kom einnig fram hjá hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur að menntunarkröfur og kröfur á bátana mundu vaxa og þar með kostnaður, [Kliður í þingsal.] en það er auðvitað þannig að það þarf enginn að stækka þessa báta. Þetta verður bara val þeirra sem það vilja og menn geta gert út á hvaða stærð sem er. En það hefur verið ákveðin þróun í þessu eins og fram hefur komið og það er búið að vera mjög vandræðalegt að horfa upp á það síðastliðin ár þegar við höfum verið að baksa við að taka á þessu. Markmið þessa frumvarps er að taka á því í eitt skipti fyrir öll og laga til og koma með þá vissulega pólitísku yfirlýsingu um þessa stærð, sem mun þá halda í það minnsta í einhver árabil. Hve lengi veit auðvitað enginn því að þróunin verður áframhaldandi.

Mér fannst mjög áhugaverður punktur hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, og formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, bætti einnig um betur, um hliðarvöxtinn sem verður í kringum sjávarútveginn. Það er oft og allt of mikið talað um sjávarútveginn sem eingöngu veiðar en það er svo mikið að gerast í kringum sjávarútveginn. Hér erum við komin aftur með skipasmíðastöðvar á Íslandi sem smíða báta og skapa útflutningstekjur, skapa þróun og tækifæri fyrir þá sem vilja fara inn í þá grein. Það er mjög áhugavert að menntunin á því sviði sé að aukast. Það er mjög jákvætt. Það skapar fjölbreyttari atvinnu, það er vaxtarbroddur í iðnaði sem hvarf á sínum tíma þannig að ég tel það vera mjög jákvæðan punkt.

Um að það sé hugsanlegt og margt sem bendi til þess að frumvarpið nái ekki því markmiði að allir bátar sem eru í þessu kerfi falli innan þess, þá er rétt að sú tillaga var sett fram sem málamiðlun. Mín skoðun er sú að hún muni festa krókaaflamarkskerfið í sessi sem grein er byggi á hagkvæmni við nýtingu sjávarauðlindarinnar frá byggðarlögum, stórum og smáum, vítt og breitt um landið.

Það er rétt að markmiðið var að höggva á þennan hnút í eitt skipti fyrir öll og taka alla þá báta sem eru í krókaaflamarkskerfinu inn í kerfið. Það gafst auðvitað skammur tími fyrir undirbúning á frumvarpinu nú fyrir sumarþing og ef nefndin í skoðun sinni á málinu kemst að þeirri niðurstöðu að þessu ákvæði þurfi að breyta horfir sá sem hér stendur jákvætt til þess. En ég treysti nefndinni til að fara vel yfir þetta og hlakka til samstarfs við hana á næstu missirum.