142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hlakka til samstarfsins í nefndinni. Við héldum fyrsta fundinn — reyndar var það sameiginlegur fundur með atvinnuveganefnd en það var ágætisfundur.

Það voru einungis praktísk atriði sem gerðu það að verkum að ekki var hægt að skipa sérstakan umhverfisráðherra. Það þarf að samþætta störf eins og gengur. Eins og stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar núna vita mjög vel þá stendur til að breyta ráðuneytum eitthvað. Ég veit vel að þeir vildu leggja mikla áherslu á heilbrigðismálin jafnvel þó að heilbrigðis- og tryggingamál hafi verið sameinuð undir velferðarráðuneyti.

Ég held að mjög mikilvægt sé í umhverfismálum, vegna þess að við ætlum svo sannarlega að gera þeim hátt undir höfði, að við skiljum hismið frá kjarnanum. Þess vegna varð ég vel við þeirri bón að halda sameiginlegan fund um málefni Hellisheiðarvirkjunar. En ég vil samt benda á eitt að á fundinum í morgun töluðu nefndarmenn lengur en gestir fundarins. Það eru vinnubrögð sem ég held að við verðum að breyta. Við verðum að vanda okkur í umræðunni þannig að allar upplýsingar komist til skila. Því miður náðist ekki að klára fundinn en við ætlum að klára hann í næstu viku og það verður að sjálfsögðu gert í fullri sátt og samlyndi við stjórnarandstæðinga sama í hvaða flokki þeir eru. (Gripið fram í: En svarið við spurningunni?)