142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði sett mig hér inn á mælendaskrá til að spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, nýkjörinn formann fjárlaganefndar, sem ég óska henni til hamingju með, út í mál málanna, kosningaloforðið stóra, stærsta loforð Íslandssögunnar sem Framsóknarflokkurinn gaf um skuldamálin og aðgerðir strax.

Ég vitna í hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Frosta Sigurjónsson, frambjóðanda flokksins í Reykjavík, sem sagði á vefsíðu sinni að ráðist yrði í niðurfellingar strax er Framsóknarflokkurinn fengi til þess umboð. Nú efast ég ekki um að framsóknarmenn hafi samræmt sig vel og að hv. þingmaður geti tekið undir þetta, en mér virðist, eins og hefur komið fram á fyrstu dögum þingsins og var rætt hér um, að það eigi að fresta þessu.

Spurning mín til formanns fjárlaganefndar er einfaldlega hvort hún geti komið með einhver ný svör vegna þess að í blöðum í dag og undanfarna daga hafa verið viðtöl við fasteignasala, formann fasteignasala, framkvæmdastjóra fasteignasala og fleiri sem segja einfaldlega að markaðurinn sé frosinn vegna loforða framsóknarmanna og það sé mjög brýnt að óvissunni verði aflétt sem fyrst og brýnt að stjórnvöld tali hreint út, eins og segir í viðtali við þessa aðila.

Virðulegi forseti. Það er þess vegna sem mig fýsir að heyra í formanni fjárlaganefndar, hvort hún geti haft eitthvað nýtt fram að færa hér um engin loforð heldur aðgerðir. Geta þær farið að koma? Getur hv. þingmaður sagt okkur eitthvað hér sem afléttir þessari óvissu og leysir það frost sem er á markaðnum sem er eingöngu út af þessu mikla kosningaloforði sem Framsóknarflokkurinn gaf og sigraði kosningarnar út á á glæsilegan hátt?