142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans fjallar um stöðu ríkisfjármála en þar koma fram áhyggjur af stöðunni enda skiptir hún verulegu máli fyrir þróun íslensks efnahagslífs. Þar er minnt á að bæði ávöxtunarkrafa og álag fyrir Ísland hafi farið lækkandi og að ætla mætti að mikill agi í fjármálum ríkisins á síðustu árum hafi aukið tiltrú á íslenskt efnahagslíf. (SII: Heyr, heyr.) Bent er á að öll merki um tilslökun í fjármálum ríkisins geti stuðlað að lakari kjörum á erlendum lánsfjármörkuðum, en kjör ríkisins á erlendum mörkuðum setja grunnkjör fyrir erlendar lántökur annarra innlendra aðila og hafa því víðtæk áhrif á stöðu, framkvæmdir og endurfjármögnun lána hjá íslenskum fyrirtækjum.

Skuldastaða ríkisins er alvarleg eftir efnahagshrunið og er sannarlega ástæða til að koma fram með tillögu til að bæta þá stöðu. Það er mikið hagsmunamál að vinna áfram markvisst að stöðvun skuldasöfnunar eins og gert hefur verið síðastliðin ár og gera síðan áætlun um að greiða niður skuldir. Jöfnuður í ríkisfjármálum skiptir einnig máli í baráttunni við að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og það skiptir máli fyrir kjör almennings í landinu.

Það er því til mikils að vinna en forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar um aðgerðir í ríkisfjármálum gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni þegar í fyrsta frumvarpinu sem hún leggur fram á kjörtímabilinu er lögð til umtalsverð tekjuskerðing fyrir ríkissjóð, væntanlega með skuldasöfnun sem henni nemur nema áform séu uppi um að skera niður í velferðar- og menntakerfi á móti tekjuskerðingunni. Því hafa stjórnarliðar ekki svarað en æ fleiri hafa vaxandi áhyggjur af afkomu ríkissjóðs og afleiðingum slakrar stjórnunar ríkisfjármála fyrir kjör fólksins í landinu (Forseti hringir.) af hálfu hægri stjórnarinnar sem nú nýlega hefur tekið við völdum.