142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það hefur talsvert verið gert með það nú þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum að við stjórnvölinn sitji yngsti forsætisráðherra sem Ísland hefur átt um áratugaskeið og það sé lægsti meðalaldur ráðherra í ríkisstjórn sem sögur fara af hér á landi. Þá bregður svo við að þessi unga ríkisstjórn ætlar heldur betur að setja í bakkgírinn og hverfa til gamalla tíma. Þar er ég kannski að þessu sinni með í huga frumvarp sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem voru samþykkt hér síðastliðið vor.

Í þeim breytingum sem samþykktar voru á lögum um Ríkisútvarpið í vor var ákveðið að breyta skipan útvarpsráðs þannig að fleiri kæmu þar að og fleiri raddir heyrðust. Það var ákveðið að setja á fót sérstaka valnefnd til þess að velja fólk í útvarpsráð, fyrir utan formann útvarpsráðs sem gert var ráð fyrir að ráðherra skipaði, og fulltrúa starfsmanna. Nú vill hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hverfa til hins gamla fyrirkomulags, að það sé pólitískt kjörið útvarpsráð. Ég verð að segja fyrir mína parta ég tel að sú þróun sé ekki góð. Ég vil líka lýsa undrun og vonbrigðum með það að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi samþykkt að þetta mál yrði lagt fram sem stjórnarfrumvarp og minna í því sambandi á að við afgreiðslu málsins í vor samþykkti þingflokkur Framsóknarflokksins það, meðal annars þrír þingmenn sem enn sitja á þingi, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Þannig að Framsóknarflokkurinn stóð að breytingum á frumvarpinu í vor og sjálfstæðismenn flestir hverjir sátu hjá, einhverjir voru að vísu á móti en flestir hverjir sátu hjá, meðal annars hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Þá var þetta ekki (Forseti hringir.) mikilvægt mál í huga ráðherrans en núna ætlar hann sem sagt að skrúfa til baka (Forseti hringir.) og fara aftur í hið gamla og pólitíska skipaða útvarpsráð. Ég verð að harma það og lýsa (Forseti hringir.) því að við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði erum (Forseti hringir.) ekki hrifin af þessum ákvörðunum.