142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að opna umræðu um mikilvægt mál sem á mikið erindi inn í þann efnahagslega veruleika sem við okkur blasir í dag. Við veltum fyrir okkur möguleikum til þess að örva hagvöxt og halda áfram að byggja landið okkar upp.

Fyrir ári síðan mælti ég fyrir breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar var lagt til að við lögin bættist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra kallaði saman að nýju þá verkefnisstjórn sem skilaði skýrslu sinni í júní 2011 og fæli henni að gera tillögu að flokkun virkjunarkosta. Í skýrslunni hafði verkefnisstjórnin raðað virkjunarkostum, eins og þekkt er, í samræmi við niðurstöður og niðurröðun faghópa á grundvelli mikillar faglegrar vinnu og samráðs. Síðan fór af stað ógagnsætt ferli.

Hér hefur hv. þingmaður látið þau orð falla að pólitíkin hafi verið tekin út úr ákvörðunum um virkjunarkosti. Ég vil meina að hið þveröfuga hafi gerst við hina pólitísku meðhöndlun við vinnu nefndarinnar, það birtist í því hvernig virkjunarkostir sem skoruðu mjög hátt, bæði frá umhverfislegu sjónarmiði og frá efnahagslegri hagkvæmni, voru teknir úr nýtingarflokki og settir í biðflokk.

Við getum í þessu samhengi m.a. litið til umsagnar frá Orkustofnun sem benti á að þar hefðu að hluta til hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár verið lagðir í biðflokk.

Ég vil meina að sú meðhöndlun málsins sýni okkur að arðsemissjónarmið, sem málshefjandi setur ofar öllu, hafi, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki endilega verið efst í huga þeirra sem lögðu fram tillöguna á sínum tíma. Vissulega er það svo að við þurfum að taka tillit bæði til arðsemissjónarmiða og annarra, en það voru hin sjónarmiðin sem réðu ferðinni. Ég sakna þess að málshefjandi tæki ekki umræðuna um umhverfið meira með í reikninginn, vegna þess að það voru umhverfisleg sjónarmið sem réðu algjörlega niðurstöðunni um rammaáætlun eins og hún fór í gegnum þingið. Það ætti kannski að vera svona eins og þriðji þátturinn í þessari umræðu. Þarna eru hin arðsemislegu sjónarmið, umhverfislegu sjónarmiðin, sem eiga sannarlega að vera hluti af umræðunni, og svo það sem hér hefur verið rætt um sem einhvers konar pólitísk forgangsröðun eða viljinn til þess að skapa störf.

Ég get verið sammála málshefjanda, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, um að við eigum ekki að láta skammtímasjónarmið um það að skapa störf ráða úrslitum þegar við stöndum frammi fyrir ólíkum virkjunarkostum. En í dag starfar Landsvirkjun á grundvelli skilgreiningar sem samþykkt hefur verið þar í stjórninni um sérstakt hlutverk. Hlutverk Landsvirkjunar samkvæmt stefnu stjórnarinnar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Það er eitthvað sem ég held að við hljótum að geta verið sammála um.

Þrátt fyrir allt þetta verð ég að segja að á undanförnum árum finnst mér sem tækifæri hafi glatast til þess að halda áfram samkvæmt orkunýtingarstefnu um að nýta hagkvæmustu kostina eins og þá sem ég hef þegar nefnt hér. Mér finnst að um of hafi hallað á vatnsaflsvirkjanir með því að meiri áhersla hefur verið lögð á jarðvarmann. Að jafnaði eru það ekki eins arðbærar virkjanir í jarðvarmanum og í vatnsaflinu. Ef við ætlum að láta umræðuna ráðast af arðsemi, eins og hv. þingmaður leggur svo mikla áherslu á, finnst mér hann því hafa mikinn efnivið í gagnrýni á rammaáætlunina eins og hún var afgreidd í gegnum þingið. Jarðvarmavirkjanir eru að jafnaði ekki eins arðbærar.

Varðandi þá pólitísku umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið um t.d. álverið í Helguvík er það rétt að mér finnst mikilvægt að Landsvirkjun kanni alla möguleika á því að koma til móts við áhugasama kaupendur, en ég hef alltaf sagt skýrum orðum að það þurfi að gerast á viðskiptalegum forsendum og á þeim forsendum sem Landsvirkjun er rekin.

Ég vil líka benda á það í þessu samhengi að í þessu er ekkert nýtt vegna þess að Landsvirkjun hefur um langt tímabil átt í viðræðum við þessa aðila. Landsvirkjun hefur hins vegar hafnað því fram til þessa að vera eini viðmælandinn og eini aðilinn sem mundi útvega orku í þetta tiltekna verkefni. Ég held að það sé (Forseti hringir.) líka skynsamleg stefna sem fyrirtækið fylgir þar.