142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu. Ég tel að grundvallarforsendan þegar við ræðum ákvarðanir um orkunýtingu sé að allar þær ákvarðanir þurfi að vera teknar með hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi, þ.e. að nýtingin sé eins góð og mögulegt er út frá umhverfisþáttum, samfélagsþáttum og hinum efnahagslegu þáttum. Liður í því er að sjálfsögðu að Landsvirkjun, sem er m.a. til umræðu hér, starfi samkvæmt þeirri hugmyndafræði. Það má svo sannarlega segja að skref hafi verið stigin í þá átt á undanförnum árum, á síðasta kjörtímabili, þar sem stefnu þessa fyrirtækis var gjörbreytt, til að mynda hvað varðar að upplýsa almenning um orkuverð, hvað varðar að hámarka arðsemi virkjunarframkvæmda. Við getum í raun og veru þegar séð að þetta fyrirtæki okkar, þessi sameign okkar, á eftir að geta verið mjög arðbær í framtíðinni þótt við ráðumst ekki í frekari virkjunarframkvæmdir heldur horfum eingöngu til þess arðs sem Landsvirkjun getur skilað okkur eftir nokkur ár. Þá getum við farið að horfa til þess að þetta gæti reynst ákveðinn fastur liður í því að skila ríkinu arði. Það skiptir því auðvitað miklu máli að þau sjónarmið séu höfð til hliðsjónar.

Það er líka mikilvægt að þetta sé alltaf gert í samhengi við umhverfið og samfélag. Þess vegna verð ég að segja í ljósi orða hæstv. fjármálaráðherra um hin pólitísku fingraför á rammaáætlun að staðreyndin er sú að sú umræða sem fór fram í þinginu var ekki eingöngu pólitísk heldur byggði líka á faglegum forsendum, þ.e. því að til að mynda var bent á af umsagnaraðilum að töluvert skorti á rannsóknir á hinum samfélagslegu þáttum ýmissa virkjana. Ég get til að mynda nefnt virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Bent var á að eðlilegt væri að færa þá virkjunarkosti í biðflokk því þarna skorti hreinlega á rannsóknir á einu af þremur meginsviðum sjálfbærni, eins og við skilgreinum (Forseti hringir.) sjálfbærni.

Við megum (Forseti hringir.) ekki gera lítið úr því þegar við eigum hér pólitíska umræðu (Forseti hringir.) að þær ákvarðanir kunna að vera grundvallaðar á góðum rökum.