142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér í umræðunni hefur víða verið komið við. Við höfum heyrt sjónarmið allt frá því að skynsamlegt sé að virkja ekkert frekar, vegna þess að það dugi okkur sem þegar hefur verið gert, yfir í það að enn séu sóknarfæri til staðar sem við eigum að grípa.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum enn ótrúlega miklar auðlindir óbeislaðar. Það rennur enn mikið vatn óbeislað til sjávar. Það á ekki bara við á þeim stöðum þar sem ekki hefur verið virkjað, það á líka við á stöðum þar sem þegar hefur verið virkjað. Það rennur til dæmis fram hjá virkjununum í Kárahnjúkavirkjun um það bil 9% af öllu afli sem þegar hefur verið virkjað hjá Landsvirkjun. Það gætu verið um 100–200 megavött á þessu svæði óbeisluð í vatninu sem þegar er til staðar og rennur fram hjá virkjununum. Það eru ómæld tækifæri ef menn bara hafa viljann og framtíðarsýn til að grípa þau til þess að bæta lífskjörin í landinu.

Hér hefur verið víða komið við og sumir hafa lagt ofuráherslu á arðsemina. Mér finnst arðsemissjónarmiðin ekki alltaf hafa orðið ofan á í þeim valkostum sem við höfum staðið frammi fyrir. Er það til dæmis til vitnis um að menn taki arðsemina ofar öllu þegar Norðlingaölduveita var slegin af en Búrfell valið í staðinn sem skilar sama afli og Norðlingaölduveita hefði gert en kostaði 10 milljörðum meira? Ekki er það til vitnis um að arðsemin hafi alltaf ráðið för. Það eru önnur sjónarmið sem koma þar inn af miklum krafti.

Þegar það hefur verið orðað að við ætlum að taka upp rammaáætlun þá ætla menn ekki að láta hana standa eins og hún er. Það verður gert með erindisbréfi til verkefnisstjórnarinnar að taka aftur til skoðunar þá kosti sem búið er að færa í sérstaka flokka.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið uppbyggileg og margt sem sameinar þá sem hér hafa tekið til máls, eins og málshefjandi kom inn á. Við eigum eftir að halda henni áfram, á forsendum rammaáætlunar, stjórnar Landsvirkjunar og framtíðaruppbyggingar þess fyrirtækis (Forseti hringir.) og nýtingar annarra virkjunarkosta í landinu.