142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum að ræða mjög stórt mál. Það var samþykkt á síðasta þingi, undir lok þess að sjálfsögðu því að í 79. gr. stjórnarskrárinnar segir að rjúfa skuli þing um leið og búið er að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er um þessa furðulegu stöðu. Þetta frumvarp er nánast sama frumvarp og ég flutti, nema þröskuldurinn er 40% í staðinn fyrir 50% hjá mér, og breytingin er til bráðabirgða, bara í eitt kjörtímabil. Og hún er auk þess til viðbótar við 79. gr.

Þá kemur upp merkileg staða. Segjum að einhver vilji flytja frumvarp um breytingu á stjórnarskránni. Hann er ekkert svo viss um að þjóðin vilji það. Þá velur hann 79. gr. óbreytta og leggur frumvarpið fram undir lok þings, það verður síðasta málið og hann fær það samþykkt. Þá greiðir þjóðin ekki atkvæði um það þannig samkvæmt 79. gr. Ef hann treystir hins vegar ekki þinginu til að samþykkja tillögu sína vísar hann henni til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er þetta ekki furðuleg niðurstaða þess að hafa tvo möguleika á því að breyta stjórnarskránni, þó að annar sé til bráðabirgða og við hliðina á hinu ákvæðinu?