142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið svo langt sem það nær. Ég er ekki alveg sammála því að báðar leiðirnar séu lýðræðislegar vegna þess að önnur er þingræðisleg, þ.e. að þingið og eftirfarandi þing geti breytt stjórnarskrá. Þar greiðir þjóðin í rauninni aldrei atkvæði um stjórnarskrána sína. Aldrei. Þegar þjóðin kýs þing er það ekki til þess að breyta stjórnarskrá heldur til þess að velja stjórnendur fyrir landið fyrir næsta kjörtímabil. Þá er verið að hugsa um efnahagslífið og menningarmál og allt slíkt, en síst af öllu stjórnarskrána.

Þessi tillaga hér, og sú tillaga sem ég flutti á síðasta þingi, gengur út á að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána sína eða breytingar á henni. Það tel ég vera lýðræðislegt en ekki hitt. Það sem ég geri athugasemd við er í fyrsta lagi að það skuli bara gilda í eitt kjörtímabil og í öðru lagi að það skuli vera tveir möguleikar. Ég er nærri viss um að ef hún væri varanleg mundi maður nota hana til að gera breytingar á stjórnarskránni hægt og rólega, bita fyrir bita en ekki allar í einu, laga það sem menn eru sammála um að gera og svo framvegis, því að það þarf ansi mikinn samþykkisþröskuld. Menn þurfa að vera sammála, hérna þurfa t.d. 40% kjósenda að vera sammála.

Sú leið sem hefur verið hingað til, þar þurfa menn ekkert að vera sammála. Það er bara meiri hluti Alþingis og meiri hluti næsta þings sem þarf að samþykkja það. Það er því verulega mikill munur á þessu. En vegna þess að þetta er tímabundið og vegna þess að þröskuldurinn var lækkaður, úr 50 niður í 40 frá minni tillögu, er ég ekki alveg sáttur við þessa tillögu. Ég þarf að hugleiða það í viðkomandi nefnd sem fær þetta til umsagnar hvort ég styð hana eða ekki.