142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvernig best er að breyta stjórnarskrá finnst mér mjög mikilvæg umræða og hana þarf einmitt að taka í tengslum við fyrirliggjandi drög að nýrri stjórnarskrá því í þeim er gert ráð fyrir að einungis verði hægt að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu á ákveðinn hátt. Mér finnst greinin þar sett fram á þannig máta að rík ástæða sé til að gagnrýna það. Ég held að þar sé t.d. ekki samþykkisþröskuldur svo dæmi sé tekið.

Vegna þess að við tillöguflytjendur ætlum ekki, eins og ég skildi það, að útkljá það núna hvernig best væri að breyta stjórnarskrá ákváðum við að þetta yrði viðbót. Okkur fannst það hófsamara. Hin leiðin til að breyta stjórnarskránni er enn þá fyrirliggjandi. Þetta er einungis tímabundinn gluggi í ljósi aðstæðna, þ.e. við erum í endurskoðunarferli á stjórnarskránni allri. Eftir sem áður er spurningin um það hversu málum verði til frambúðar best fyrir komið opin. Ég mundi gjarnan vilja ræða þá spurningu við hv. þm. Pétur H. Blöndal í betra tómi. Ég hneigist til þess eins og hann, og hann virðist vera afdráttarlausari en ég treysti mér kannski til að vera á þessari stundu, að líta svo á að þjóðaratkvæðagreiðsla sé betri leið til að breyta stjórnarskrá og það ætti að vera framtíðarskipulagið.

Það hafa líka komið fram athugasemdir við það, t.d. eins og þegar þarf stundum að koma inn í stjórnarskrá ákveðnum réttindum minnihlutahópa, þá hefur reynsla utan úr heimi sýnt að stundum er það erfitt með allsherjaratkvæðagreiðslu. Í þeim tilvikum gæti þjóðaratkvæðagreiðsla ekki hentað. Þetta er spennandi umræða sem bíður endurskoðunarferlisins sem vonandi fer af stað aftur í þinginu hið fyrsta.