142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þremur flutningsmönnum þess máls sem við flytjum nú öðru sinni til staðfestingar. Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi og samþykkt í kjölfar þeirrar miklu vinnu sem þá hafði farið fram við samningu nýrrar stjórnarskrár.

Ég vil fyrst segja það hér að það sem mér finnst einn mesti ávinningurinn af þessari vinnu er sú umræða sem fór fram úti í samfélaginu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Umræðan var miklu meiri og dýpri en við höfum áður heyrt, á undanförnum árum mundi ég halda og jafnvel áratugum, og varð að mínu viti málinu til framdráttar því að það má segja að umræðan hafi ekki verið einskorðuð við þingsal heldur fór hún fram úti í samfélaginu og birtist ekki aðeins í umræðuþáttum fjölmiðla heldur líka á kaffistofum og vinnustöðum og um allt samfélagið. Ég held að sjaldan eða aldrei hafi almenningur á Íslandi, nema kannski við upphaf lýðveldistímans, verið meðvitaðri um bæði gildandi stjórnarskrá og þær breytingar sem lagðar voru til, sem var auðvitað stórkostlegur ávinningur í sjálfu sér.

Um þetta var talsvert rætt á síðasta þingi þar sem fram komu þau sjónarmið að í ljósi þess að Alþingi væri stjórnarskrárgjafinn, sá sem færi með það vald að breyta stjórnarskrá, ætti eingöngu að líta til þeirrar umræðu sem hefði farið fram á Alþingi en ekki í stjórnlagaráði eða á öðrum sviðum samfélagsins. Ég er algerlega ósammála því viðhorfi í ljósi þess að stjórnarskráin er stjórnarskrá þjóðarinnar allrar og það er mjög mikilvægt að þjóðin öll sé meðvituð um hvað hún vill hafa í stjórnarskrá og hvað stendur í stjórnarskrá og hvernig samfélag við viljum byggja.

Þessi vinna var mjög vel á veg komin. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað á undan mér, hv. flutningsmönnum. Það er mjög mikilvægt að við tökum upp þann þráð á nýjan leik og setjum okkur í raun og veru aðgerðaáætlun um það hvernig við ætlum að vinna áfram að endurskoðun stjórnarskrárinnar og samningu nýrrar stjórnarskrár. Það er gríðarleg vinna sem liggur þarna að baki og mikilvægt að þeirri vinnu verði haldið fram og sett niður eitthvert plan um hvernig eigi að gera það.

Ástæða þess að við lögðum fram þessa tillögu á sínum tíma og hún var samþykkt hér í þingsal var hins vegar sú að við töldum mikilvægt að umræðan færi ekki í stopp undir þinglok, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir. Við höfum upplifað að umræða um stjórnarskrármál hefur orðið mjög fyrirferðarmikil undir þinglok. Nærtækast er að minnast ársins 2009 þar sem alllengi var rætt í þingsal um stjórnarskrárbreytingar án þess að niðurstaða næðist. Það er auðvitað ekki rétta andrúmsloftið að vinna að breytingum á stjórnarskrá undir tímapressu í þinglok.

Eitt af því sem kom líka fram í þeirri vinnu sem hér fór fram, á meðan heimsókn fulltrúa Feneyjanefndarinnar stóð og farið var yfir þau drög sem þá lágu fyrir — ég átti fund með fulltrúum Feneyjanefndarinnar þar sem sérstaklega var rætt um breytingarákvæðið, að það breytingarákvæði sem við höfum í gildandi stjórnarskrá gerði það hreinlega að verkum að sú staða gæti komið upp að það væri erfitt að breyta stjórnarskrá því að umræðan færi alltaf fram undir slíkri tímapressu.

Við ákváðum því að leggja til aðra leið þannig að það yrðu í raun og veru tvær leiðir í gildi. Hugsunin á bak við það, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, var að hafa þá leið tímabundna til að hægt yrði að ljúka og ná sátt um hvaða breytingarákvæði við ætluðum hafa til frambúðar í stjórnarskránni. Hugsunin var sú í ljósi þess hve vinnan væri langt komin að unnt væri að ljúka henni á því kjörtímabili sem nú er að hefjast og því er þessi tímabundna leið lögð fram.

Hér hefur verið rætt um samþykkisþröskuldinn hjá þjóðinni. Það er ljóst að sumum þykir hann of lágur og öðrum þykir hann of hár. Við lögðum frumvarpið upphaflega fram með lægri samþykkisþröskuldi hjá þjóðinni en eftir vinnu í nefnd og heilmiklar umræður á þingi um það mál var fallist á að breyta því og hækka þennan þröskuld. Það gerum við og horfum til þess að það liggur auðvitað fyrir og setur mjög mikla pressu á þingið að ná mikilli sátt um þær breytingar sem verða gerðar. Hins vegar tel ég að hægt sé að tryggja slíka þátttöku í ljósi þess að hér er almennt góð kosningaþátttaka. Það er auðvitað líka hægt að tryggja hana með því að láta atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá fara fram samhliða öðrum almennum kosningum, hvort sem það eru sveitarstjórnarkosningar, forsetakosningar eða einhverjar aðrar kosningar á næstunni. Fyrst og fremst snýst þetta um það því að það þarf líka samþykki 2/3 þingmanna og það þýðir auðvitað að breytingarnar krefjast mikillar sáttar.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara neitt ítarlegar yfir málið í ljósi þess að aðrir hv. flutningsmenn hafa farið yfir það, en fyrst og fremst tel ég mikilvægt að vinnu við málið verði haldið áfram á þessu kjörtímabili og síðan verði tekin umræða um það hvernig við viljum sjá þetta breytingarákvæði verða í þeirri stjórnarskrá sem við hyggjumst hafa hér til framtíðar. Ég tel þetta frumvarp hins vegar gefa okkur færi á því að ljúka þeirri vinnu en ekki undir þeirri tímapressu sem við höfum áður séð og tel að við höfum alla möguleika á því á nýju þingi að ná sátt um breytingar á stjórnarskrá.