142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[16:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Píratar eru eins og segir í grunnstefnunni okkar hlynntir beinu lýðræði í öllum formum sem bjóðast og hérna er verið að bjóða upp á eitt ákveðið form. Það er verið að bjóða upp á, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefnir, að opnaður verði ákveðinn gluggi.

Nú er spurningin: Hvað er glugginn opnaður mikið og hve hár er hann? Hvað gæti raunverulega komist í gegn?

Fyrst þurfa 2/3 hlutar þingsins að samþykkja einhverja breytingu og fyrst ekki náðist samstaða á síðasta þingi um mjög vel rætt ákvæði þá er spurning hvað þingið gæti raunverulega sameinast um þegar þarf 2/3 hluta þingsins. Þar á eftir þurfa 40% þjóðarinnar að samþykkja breytinguna. Segjum að það yrði 80% kosningaþátttaka, þá þyrfti helmingur að samþykkja breytinguna. Það er svolítið mikil þátttaka en þó gerleg. Þetta er það sem er í boði núna en við skulum ekki gleyma því sem gerðist á síðasta þingi. Þá var í boði endurskoðun stjórnarskrár sem skyldi byggð á, eins og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslunni með yfirgnæfandi meiri hluta, frumvarpi stjórnlagaráðs. Það var möguleiki að klára það á síðasta þingi þrátt fyrir hótanir um málþóf. Það þurfti bara níu þingmenn, samkvæmt þingsköpum, til að krefjast þess að stöðva umræðurnar og stytta þær þannig til að hægt væri að halda málinu áfram. Það er samhengið sem við höfum.

Við píratar erum að skoða núna að annars vegar er verið að opna glugga þó að hann sé mjög lítið opnaður og fátt komist í gegn, hann er hátt uppi á þessu húsi, en hins vegar er hann þröngur. Eigum við að skapa svoleiðis fordæmi? Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir.