142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að auðlegðarskattur á 5 þúsund ríkustu heimilin í landinu verði ekki framlengdur á næsta ári, en hann gefur tæpa 10 milljarða í tekjur í ár. Í gær dreifði svo Framsóknarflokkurinn frumvarpi um lækkun veiðigjalds um 4–6 milljarða á næsta ári. Þetta verður ekki skýrara. Útgerðarmenn og efnafólk fær peninga strax en skuldug heimili eru sett í nefnd. Það er til nóg af peningum en ríkisstjórnin situr samt á fundum og ræðir um niðurskurð á mikilvægri velferðarþjónustu.

RÚV færir okkur fréttir af því að í gær hafi ríkisstjórnin setið á fundi og rætt um hvort við höfum efni á tannlækningum fyrir börn og þeim samningum sem gerðir hafa verið þar að lútandi. Þetta er vond forgangsröðun, virðulegur forseti.

En við eigum ekki hér á þinginu bara að gagnrýna. Ég hef fagnað yfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að leiðrétta eigi skerðingar á öldruðum og öryrkjum frá árinu 2009 sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi lofuðu í kosningunum. En hvar er frumvarpið þar að lútandi? Ég kalla eftir því að stjórnarliðar segi okkur af hverju það er ekki fram komið af því að þetta er stutt sumarþing og það er mál sem þarfnast mikillar umfjöllunar.

Við í Samfylkingunni höfum þegar lagt fram frumvarp um þetta efni og mér hefði þótt fara betur á því að hér kæmi fyrst fram frumvarp um að bæta kjör aldraðra og öryrkja og leiðrétta skerðingar á þeim aftur til ársins 2009 áður en frumvörp um lækkun á sköttum á útgerðarmenn og yfirlýsingar um afnám skatta á eignafólk kæmu fram. En Framsóknarflokkurinn flýgur sem hann er fiðraður til.