142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær var dreift nýju frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um veiðigjald en ef það verður að lögum munu tekjur ríkissjóðs dragast saman um 3,2 milljarða á þessu ári, 6,4 milljarða á næsta ári. Á sama tíma gefur Hafrannsóknastofnun út skýrslu um ástand fiskstofna og veiðiráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár þar sem ráðgjöfin er hækkuð sem nemur auknum útflutningsverðmætum upp á 15–16 milljarða kr.

Þá er það mat nýrrar ríkisstjórnar að rétt sé að lækka sérstaka veiðigjaldið sem tekið er af arði sjávarútvegsfyrirtækja. Á sama tíma og allt þetta gerist ákveða formenn stjórnarflokkanna að halda blaðamannafund þar sem þeir kynna horfur í ríkisfjármálum, sem þeir telja slæmar, og benda á síðustu ríkisstjórn sem sökudólg alls þess sem illa kann að fara í ríkisfjármálum.

Mér þykir æðiholur hljómur í slíkum málflutningi þegar fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar er að draga úr tekjum um 8 milljarða kr. á ársgrundvelli ef við lítum bæði til frumvarpsins um veiðigjaldið og framlagðs frumvarps um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og enn hefur ekki verið lagt fyrir þingið hvað eigi að gera í staðinn.

Einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokks lagði til að hætta við framkvæmdir við Náttúruminjasafn. Kannski er fyrirhugað að lækka Kvikmyndasjóð, kannski er fyrirhugað að lækka Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð sem eru jú fjármagnaðir með sérstaka veiðigjaldinu. Kannski eru það Norðfjarðargöng. Í það minnsta er ljóst að ef þessi frumvörp ná fram að ganga er sú mikla fjárfesting sem hefur verið lögð í fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í mikilli hættu. Þetta sýnir líka mjög skýrt forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem er að draga úr tekjum ríkissjóðs, passa upp á stórútgerðina, en ekkert kemur fram hvar eigi að afla tekna á móti eða hvort eigi að fara að ráðast í niðurskurð á velferðarkerfi eða draga úr fjárfestingum í fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu. Önnur mál bíða á meðan.