142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða þau tíðindi sem berast utan úr heimi. Í nútímalýðræðisríki eins og Rússlandi er ákveðið að banna með lögum samkynhneigð og að banna með lögum guðlast og umræður um trúmál. Rússland hefur viljað kalla sig nútímalýðræðisríki og slíkar samþykktir eins og komu fram í fréttum í gær eru með ólíkindum og hljóta að vekja okkur í lýðræðisríki eins og Ísland er til umhugsunar um það á hvern hátt við förum með þetta dýrmæta vald sem við höfum í lýðræðisríkjum.

Sömu sögu er að segja um Grikkland. Þaðan berast þær fréttir að stjórnvöld hafi lokað ríkisútvarpinu ERT og hyggist opna það að nýju eða stofna nýtt útvarp í haust. Maður veltir fyrir sér hverra hagsmuna er verið að gæta. Sagt er að innan þeirrar stofnunar ríki spilling, en hverra er að upplýsa hinn almenna íbúa Grikklands um það sem þar fer fram?

Mér finnst þróunin í þessum tveimur löndum eins og hún birtist okkur í fjölmiðlum alvarleg og mér finnst að ríki eins og Ísland, lýðveldið Ísland, eigi að láta sig skipta þessi mál. Við hér, alþingismenn sem njótum þeirra forréttinda að vera kjörin, að vera kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, þurfum líka að halda á lofti því dýrmæta eggi sem lýðræðið er og fara vel með það í umræðu og taka afstöðu til mála af því tagi (Forseti hringir.) sem ég hef hér nefnt.