142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að vekja máls undir þessum lið á því að nú á laugardaginn hefur verið boðað til mótmælafundar á Austurvelli til þess að berjast fyrir breyttu skipulagi við Ingólfstorg og Nasa undir heitinu: Björgum Ingólfstorgi og Nasa. Það hafa nú hátt á annan tug þúsunda manna skrifað undir yfirlýsingu þar sem borgaryfirvöld eru hvött til þess að hlusta á þau sjónarmið sem hafa komið fram í athugasemdum við fyrirhugað skipulag þar sem áhersla er lögð á að koma í veg fyrir að gömlu timburhúsunum við Ingólfstorg verði ógnað með nýbyggingum, að vinna að því að tónlistarsalurinn Nasa verði friðaður og varðveittur vegna sögu sinnar og innréttinga, að koma í veg fyrir byggingu risahótels sem teygir sig yfir í Landssímahúsið með tilheyrandi viðbyggingum við Kirkjustræti og Fógetagarð og tryggja að svæðið hér í miðborginni, Austurvöllur og Fógetagarðurinn, verði opin svæði í þágu borgarbúa og þeirra sem sækja borgina heim í stað þess að fylla það með byggingum.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál sem varðar Alþingi líka. Ég vek athygli á því að forseti Alþingis og forsætisnefnd Alþingis hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við umrætt skipulag þar sem þau telja að skipulagsáformin þrengi mjög að Alþingi og stefni öryggi þess í hættu.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er sérstaklega fjallað um húsavernd og manngert umhverfi borga og bæja þar sem lögð er áhersla á að framkvæmdir styrki heildarmynd svæða sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni og auka þannig menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl, eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja ríkisstjórnina undir forsæti forsætisráðherra og Alþingi og forseta Alþingis til að beita sér af fullum þunga í þessu máli og styðja við þann málflutning sem hafinn er (Forseti hringir.) meðal annars á þeim mótmælafundi (Forseti hringir.) sem boðaður hefur verið á laugardag.