142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um stöðu ríkissjóðs. Í gær héldu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra blaðamannafund og fóru í gegnum stöðu ríkissjóðs. Ég tel mjög mikilsvert að nýir þingmenn átti sig á því hversu mikilvægt er að gætt sé aga í ríkisfjármálum. Við höfum séð hjá Grikkjum hvernig fer fyrir þeim sem ekki horfast í augu við vandann

Mér finnst vanta stóra hluti inn í stöðu ríkissjóðs til viðbótar við það sem nefnt var á blaðamannafundinum í gær. Þar vantar til dæmis 61 milljarð inn í A-deild LSR, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en sú deild átti að standa undir sér. Inn í B-deildina vantar um 400 milljarða. Svo vantar mikla fjármuni inn í Íbúðalánasjóð. Hann á að vera með 5% eigið fé en er langt í frá með 5% eigið fé. Það voru settir í hann 13 milljarðar síðastliðið vor og það var ekki bókfært sem gjöld þó að það væri ætlað til þess að bæta upp laka stöðu sjóðsins. Þannig að ég hugsa að það vanti einhverja tugi milljarða inn í Íbúðalánasjóð.

Síðan eru ýmis smá dæmi eins og Sparisjóður Keflavíkur og fleira sem ég hygg að séu enn þá óuppgerð, en það kom fram í svari sem ég fékk í vor frá fjármálaráðherra að á árunum 2009–2011 sýndi ríkisreikningur 101 milljarð í útgjöld ríkissjóðs umfram heimildir í fjárlögum og fjáraukalögum. 101 milljarð vantaði inn í ríkissjóð umfram heimildir. Það finnst mér vera agaleysi og við þurfum að taka á því.