142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi mikinn áhuga á því að upplýsingar berist til allra þingmanna, það er vel. Það hefði betur verið meiri áhersla lögð á það á síðasta kjörtímabili þegar við sátum með ríkisstjórn sem ætlaði sér að fara með Icesave-samningana óséða í gegnum Alþingi.

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn leggur mikla áherslu á öflugt atvinnulíf vegna þess að það er undirstaða þess að hér verði vöxtur og velferð. Ríkisstjórnin mun kappkosta að skapa hér starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart að ríkisstjórnin leggi hér fram mál er varða virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og starfsumhverfi sjávarútvegsins, sem er okkar grundvallaratvinnugrein. Þeir þingmenn sem tekið hafa þátt í umræðu um þessi mál vita og þekkja þau viðbrögð sem komu frá ferðaþjónustunni við þessari nýju skattlagningu fyrrverandi ríkisstjórnar og hækkun á virðisaukaskattinum gagnvart ferðaþjónustunni.

Það er ekki rétt að halda því fram að það sé skattur sem leggist á erlenda ferðamenn. Við þekkjum það vel að ferðaþjónustuaðilarnir voru búnir að gefa út verð til kaupenda sinna, búnir að selja ferðir sínar. Það er því algjörlega ljóst að sú skattahækkun lenti beint á litlum og meðalstórum íslenskum fyrirtækjum. Það er það sem skiptir máli í þessu máli og menn eiga ekki að vera hér með einhverja útúrsnúninga í aðrar áttir. Það er ekki sanngjarnt og ekki rétt (Gripið fram í.) og menn eiga að vita betur eftir að hafa starfað á Alþingi í fjögur ár og sérstaklega eftir að hafa verið fjármálaráðherra og lagt til þessa skattahækkun. (Gripið fram í: Rétt.)