142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan um að ég studdi vissulega þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu á síðasta kjörtímabili og ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið góðar breytingar. Ég er hins vegar ekki á því að maður eigi alltaf að gera allt sem maður má gera. Að einhver hafi heimild til að gera eitthvað segir ekki að hann eigi að gera það og að rétt sé að gera það. Ég hélt að við hv. þm. Birgir Ármannsson deildum þá þeirri skoðun að frelsi ætti almennt að vera sem mest en það jafngildir ekki því að maður eigi að gera allt sem maður má gera. Menn þurfa að velta því fyrir sér hvort rétt sé að gera það sem má gera.

Mér heyrðist það hins vegar á hv. þingmanni og það kom mér á óvart að til að menn gerðu ekki einhverja vitleysu þá þyrfti hún að vera bönnuð. Mér finnst það ólíkt hv. þm. Birgi Ármannssyni en ég heyrði ekki betur en hann væri þeirrar skoðunar.