142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að taka þessa umræðu upp hér á þinginu. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að ráðherra fór í skoðunarferð um Fljót, Svarfaðardal og Eyjafjörðinn að öðru leyti og Fnjóskadal, Aðaldal, Reykjadal og Kinn og svæði í Suður-Þingeyjarsýslum en komst hvorki á norðausturhornið né á Austurland.

Varðandi fyrirspurnina, hvort fyrir liggi heildarúttekt, þá hefur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins metið tjón af völdum kals. Helstu niðurstöðurnar eru þær að í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum eru verstu svæðin við Steingrímsfjörð og norðanvert Djúp. Í Húnavatnssýslum er kal víða til ódrýginda, en aðeins á fáum bæjum er tjónið stórfellt. Í Skagafirði eru verstu svæðin Hjaltadalur, Óslandshlíð og út eftir Sléttuhlíð, Viðvíkursveit og Hegranes. Í Eyjafirði eru verstu svæðin í Hörgárdal og Öxnadal og halda má því fram að Suður-Þingeyjarsýsla sé meira og minna undirlögð í tjóni. Í Norður-Þingeyjarsýslu eru verstu svæðin í Þistilfirði, Öxarfirði og Kelduhverfi og eins er kal á Austurlandi mjög útbreitt í Vopnafirði, Jökuldal, Jökulsárhlíð, Hróarstungu, Fellum, Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá.

Í yfirliti sem Ráðgjafarmiðstöðin sendi virðast skemmdir hektarar vera yfir 5.210 og á um 269 bæjum, þar af á 100 bæjum í Norður-Þingeyjarsýslu og 60 bæjum á Austurlandi — í Suður-Þingeyjarsýslu eru þetta um 1.900 hektarar og á Austurlandi 1.300 en heldur minna á öðrum svæðum.

Rétt er að halda því til haga að þetta er mat ráðunautanna á hverju svæði. Enn er verið að heimsækja bændur og skoða tún og til að setja þetta í samhengi við það hvað kostar að endurrækta einn hektara, er það að lágmarki 100 þúsund við bestu aðstæður fyrir utan áburðarkostnað. Kostnaðurinn við endurræktun á öllum þessum hekturum er því að lágmarki um 520 milljónir. Ekki liggur fyrir á sama hátt mat á öðru tjóni. Heykaup, minnkandi fóðurbætisgjöf, olíukostnaður vegna snjómoksturs, vinnuþáttar o.s.frv.

Hitt er jafn víst að óhugsandi er að bæta allt þetta tjón, til þess eru engir fjármunir og eðli landbúskapar er að auki þannig að allir sem þekkja til atvinnuvegarins vita að stundum árar vel og stundum verr. Sum ár eru hagfelld og önnur óhagfelld og bændur eru vanir að kljást við þessi verkefni.

Hv. þingmaður spurði hvort til greina kæmi að setja sérreglur til að mæta þessum óbeinu áföllum. Allir sem hafa sett sig inn í málin hafa mikla samúð með bændum í þeim miklu erfiðleikum sem þeir hafa staðið frammi fyrir í því árferði sem ríkt hefur um norðan- og austanvert landið nú í vetur, en hann settist óvenjusnemma að með illviðrisskotinu í september eins og við munum og í sumum sveitum hefur ríkt því sem næst stöðug vetrarveðrátta síðan með undantekningu á síðustu viku.

Annars staðar hefur brugðið til betri veðráttu á milli, en hvarvetna hefur veturinn þó orðið erfiður og langur með tilheyrandi kaltjóni í framhaldinu. Ríkissjóður mun koma að þessum málum, en ég bið þingheim að gera sér ljóst að þær aðgerðir allar verða að taka mið af þeirri stöðu ríkissjóðs sem við stöndum frammi fyrir, auk þess sem aðgerðirnar verða að nýtast sem allra best í framhaldinu og fela í sér sem mestan heildarávinning. Í því sambandi hljóta mest að verða skoðaðar leiðir sem fela í sér hvata til endurræktunar túna. Þannig mun tvennt ávinnast; vanda bænda vegna árferðisins verður mætt og ræktunarmenning efld til framtíðar.

Varðandi þriðju spurningu hv. þm. Haraldar Benediktssonar, hvort og hvenær sé að vænta upplýsinga um hvernig stjórnvöld komi til aðstoðar, er rétt að segja að áður en við göngum til þessara verka að þessu leytinu þarf umfang tjónsins að liggja fyrir. Ég minni á almennar reglur Bjargráðasjóðs varðandi greiðslur kalbóta í þessu sambandi. Eins vil ég ítreka þau atriði sem talin voru upp hér fyrr.

Ég tek þó fram að stjórnvöld vilja hraða þessu eins og verða má enda er starfshópur í gangi, og hefur verið í ráðuneytinu um nokkurn tíma út af þessum aðstæðum, að skoða með hvaða hætti hægt er að bregðast við. Ég minni jafnframt enn á að þröng staða ríkissjóðs hefur áhrif í þessum málum eins og öllum öðrum þar sem fjárútgjöld koma til umræðu.

Í heimsókn minni upplifði ég þann þrótt sem er í bændum á svæðinu, þann kraft sem hefur til dæmis sýnt sig í því, eins og hv. þingmaður nefndi, að einstaka bændur hafa tekið upp 100 hektara nú þegar, velt við, sáð í og eru tilbúnir að takast á við þann vanda sem fyrir liggur án þess að nokkurn tímann hafi legið fyrir loforð um fjárstuðning. Menn eru tilbúnir að takast á við þetta. Ég tel það mikilvægt að við sem þjóð, sem við höfum ávallt gert, stöndum á bak við þá sem verða fyrir náttúruhamförum.