142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega þörf á að taka til umræðu þær náttúruhamfarir sem hafa átt sér stað. Ég gerði það sjálfur gagnvart bændum í september síðastliðnum eftir hið mikla óveður sem gekk yfir þar sem mikill fjárskaði varð og mikið tjón á girðingum og öðru. Nú bætist við mikið kal, eitt versta kal í túnum sem við höfum frétt af hin síðustu ár.

Síðasta ríkisstjórn brást ákaflega vel og fljótt við. Í raun og veru betur en í þessari umræðu sem komin er núna þar sem spurt er hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Þá komu fram hjá hæstv. ráðherra skýr skilaboð til bænda, sem voru ákaflega mikilvæg, um að ríkisvaldið með Bjargráðasjóð og fjárframlögum úr ríkissjóði — vegna þess að sjóðurinn hefur ekki nægjanlegt fé til að standa undir þessu — það komu strax fram skýr skilaboð um að vel yrði staðið við bakið á bændum hvað þetta varðar. Nú finnst mér hins vegar kveða við svolítið annan tón hjá hæstv. ráðherra. Komin eru aðvörunarorð um slæma stöðu ríkissjóðs o.s.frv. Þetta eru ekki þau skilaboð sem bændur þurfa að fá núna. Bændur þurfa að fá klár skilaboð, eins þeir fengu frá síðustu ríkisstjórn eftir óveðrið sem geisaði í september, um að brugðist verði við þeim miklu náttúruhamförum, í raun og veru, sem koma í framhaldi af miklum snjóalögum og hörðum vetri og komið til móts við bændur.

Virðulegi forseti. Þegar maður les ræðurnar síðan í september get ég tekið undir það sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Ég tek undir það að ríkisstjórnin standi eins vel við bakið á fólki þarna og gert var í eldgosunum undir Eyjafjöllum og í Vatnajökli.“

Virðulegi forseti. Ég vona að í seinni ræðu hæstv. ráðherra komi klár skilaboð til bænda og þeirra fólks um að staðið verði myndarlega við bakið á þeim vegna þessara náttúruhamfara, eins og síðasta ríkisstjórn gerði bæði varðandi eldgosin og óveðrið í september. (Forseti hringir.)