142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Forseti. Þingmenn. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Haraldar Benediktssonar sem hóf umræðuna. Ég átti samtal við formann sauðfjárbænda fyrr í vikunni og það er ekkert ofsögum sagt að ástandið er mjög alvarlegt, sérstaklega í Norðausturkjördæmi og víðar. Ég heyri svo sem ekkert annað en að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi skilning á málinu og ég treysti því að hann gangi í það. Mér finnst alls ekkert óeðlilegt að líka sé horft í kostnað, sér í lagi þar sem Bjargráðasjóður er eiginlega tómur.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé tækifæri núna til að leggja niður til dæmis fóðursjóð. Það er kannski ekki mikill kostnaður af honum en það hefur lengi legið fyrir að leggja hann niður og margar skýrslur verið skrifaðar um ónauðsyn hans, þannig að ekki þarf að eyða peningum í fleiri skýrslur heldur nota peninginn frekar í að hjálpa bændum. Ég treysti því að hæstv. ráðherra gangi í málið og efast ekkert um að hann geri það. Takk fyrir.