142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þann samhug sem ég skynja í henni. Ég vil segja um svör ráðherrans almennt að sú samantekt sem hann fór yfir staðfesti fyrir mér að tjónið sé jafnvel umfangsmeira en ég hafði óttast og það hefur komið fram í máli fleiri ræðumanna að það er mikið og stórt. Eins og ég sagði í ræðu minni í upphafi er það ekki síst vegna þess að allir þessir þættir leggjast saman; minni uppskera í fyrra, óvenjulegt veðurfar í september og síðan þetta harða vor sem veldur svo löngum gjafatíma.

Ég vil með ákveðnum hætti taka undir með hv. þm. Kristjáni Möller um myndarlega aðkomu og góð störf fyrri ríkisstjórnar eins og ég sagði í framsögu minni áðan og góð viðbrögð við vanda bænda sem glímdu við afleiðingar eldgosa og septemberóveðursins. Við eigum þetta tæki sem er Bjargráðasjóður. Hann er, ef mig misminnir ekki, 100 ára að stofni til, en hann var stofnaður 1913 til að mæta almennum harðindum. Það er kúnstugt að enn 100 árum síðar eigi grunngildi sjóðsins enn þá algjörlega við.

Stundum hefur verið talað um að ríkissjóður hafi lagt fram peninga á myndarlegan hátt í Bjargráðasjóð. Það var í raun beinlínis gert ráð fyrir því við breytingu á lögum sjóðsins 2009 að kæmi til stóráfalla mundi ríkissjóður bregðast við með þeim hætti.

Ég vil í framhaldi af þeim miklu áföllum sem sjóðurinn hefur orðið fyrir á undanförnum árum líka taka upp umræður um það hvernig við komum í fastara horf fjármögnun sjóðsins til lengri tíma og með þátttöku atvinnuvegarins til að eiga þar fullkomna tryggingavernd.