142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingu á 9. gr. gildandi laga um tilnefningu í stjórn Ríkisútvarpsins sem kosin er á aðalfundi félagsins. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skuli sjö menn tilnefndir af hálfu Alþingis í hlutbundinni kosningu ásamt jafnmörgum til vara.

Þegar ég tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra hafði ráðuneytið þegar hafið undirbúning að skipun valnefndar og sent ósk um tilnefningu í hana 9. apríl sl. Tilnefningar höfðu þegar borist frá Bandalagi íslenskra listamanna og samstarfsnefnd háskólastigsins en tilnefning þriggja manna í valnefndina og annarra þriggja til vara hafði ekki borist allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem hafði reyndar misst umboð sitt frá og með kjördegi 27. apríl sl. Þar sem engin allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið starfandi frá kjördegi hefur því dregist í ráðuneytinu að ljúka skipun valnefndar um tilnefningu fimm stjórnarmanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 23/2013 bar að halda sérstakan aðalfund Ríkisútvarpsins til að skipa stjórnir samkvæmt 9. gr. laganna innan þriggja mánaða frá gildistöku þeirra, þ.e. fyrir 21. júní nk. Samkvæmt framansögðu hefur valnefnd um tilnefningu fimm stjórnarmanna í stjórn Ríkisútvarpsins því ekki verið skipuð. Sitjandi stjórn Ríkisútvarpsins sem valin er samkvæmt 8. gr. eldri laga um Ríkisútvarpið, laga nr. 6/2007, heldur umboði sínu uns ný stjórn hefur verið kosin á aðalfundi félagsins, samanber ákvæði VIII til bráðabirgða í lögum nr. 23/2013. Í stað þess að bíða eftir tilnefningu í valnefndina frá nýrri allsherjar- og menntamálanefnd á 142. löggjafarþingi og skipa valnefndina í kjölfarið taldi ég rétt að gera þær breytingar á fyrirkomulagi við val stjórnarmanna sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi.

Þegar Ríkisútvarpið var lagt niður sem ríkisstofnun og stofnað opinbert hlutafélag um rekstur þess með lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, var Alþingi fengið það hlutverk að tilnefna með hlutbundinni kosningu fimm menn ásamt jafnmörgum til vara sem kjósa skyldi í stjórn þess á aðalfundi. Í tíð forvera míns í embætti ráðherra, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, var um mitt ár 2009 skipaður starfshópur um almannaútvarp á Íslandi. Verkefni starfshópsins var að meta áhrif laga nr. 6/2007 á starfsemi Ríkisútvarpsins og gera tillögur á úrbótum. Í kjölfar þess að starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum var skipuð nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007.

Í erindisbréfi nefndarinnar var þess getið að henni væri ætlað að leggja mat á hlutverk stjórnar Ríkisútvarpsins og fyrirkomulag við skipan hennar. Nefndin skilaði af sér tillögu að frumvarpi í upphafi árs 2012 sem varð síðan grunnurinn að gildandi lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um Ríkisútvarpið er gert ráð fyrir að tveir stjórnarmenn séu valdir með beinum hætti, þ.e. formaður sem ráðherra tilnefnir og stjórnarmaður sem Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins kjósa úr sínum röðum með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Aðrir stjórnarmenn skulu tilnefndir af valnefnd sem Bandalag íslenskra listamanna, samstarfsnefnd háskólastigsins og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefna fulltrúa í. Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 23/2013 er rakið að kröfur hafi verið uppi um að Alþingi kæmi hvergi nærri vali á stjórn Ríkisútvarpsins á grundvelli svonefndrar armslengdarreglu. Niðurstaða nefndarinnar hafi þó orðið sú að mæla með því að tengsl Alþingis og Ríkisútvarpsins yrðu ekki rofin að fullu enda væri Alþingi eina stofnun landsins með kjörnum fulltrúum allra landsmanna.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins er rakið að tillaga um setu fulltrúa starfsmanna í stjórn án atkvæðisréttar hafi verið sett fram í því augnamiði að stuðla að auknu lýðræði innan stofnananna, það gerði starfsmenn meira ábyrga fyrir starfseminni og stuðlaði að lýðræðislegum starfsháttum innan Ríkisútvarpsins. Þátttaka fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd var rökstudd með því að þannig væri tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum yrði valinn í stjórn. Á sama hátt var talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna stuðlaði að því að í stjórn veldist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum.

Meðal fyrstu mála sem komu á mitt borð sem mennta- og menningarmálaráðherra var umrætt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum Ríkisútvarpsins. Eftir vandlega skoðun var það niðurstaða mín að þrátt fyrir góð áform löggjafans um aðkomu valnefndar að vali stjórnarmanna félagsins væri fyrirkomulagið gallað því að engin trygging væri fyrir því að það næði markmiði sínu. Þvert á móti gætu t.d. náin tengsl mennta- og menningarmálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðherra við háskólasamfélagið og menningargeirann almennt leitt til þess að mennta- og menningarmálaráðherra gæti haft meiri áhrif á störf valnefndarinnar en honum væri ætlað lögum samkvæmt og þarf ég ekki að útskýra það hvernig slíkt gæti gerst.

Ég vil halda því fram að færa megi fyrir því nokkuð sterk rök að það geti vel farið svo að í valnefnd eins og þeirri sem hér er lagt upp með verði ekki síður ráðandi pólitísk sjónarmið en það sem kæmi héðan úr þinginu. Það fer allt eftir því hvernig skipað er, hvaða einstaklingar eru skipaðir. Ég leyfi mér að fullyrða að það væri mikil bjartsýni að halda að menn nái einhvers konar armslengdarsjónarmiðum eða taki út pólitíkina, eins og kallað er, með því fyrirkomulagi sem lagt var upp með.

Það má halda því fram að það að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö stjórnarmönnum í Ríkisútvarpið sé um margt ólýðræðisleg aðferð og ógegnsæ gagnvart almenningi. Valnefndin ber nefnilega enga ábyrgð gagnvart kjósendum og ef óheppilega tekst til með val stjórnarmanna í Ríkisútvarpið sætir valnefndin engri ábyrgð. Ég tel eðlilegra og lýðræðislegra að þeir sem velja í slíka stjórn þurfi að standa kjósendum skil á sínum ákvörðunum í kosningum. Þá geta kjósendur lagt mat á það ásamt auðvitað öðru, ég reikna ekki með að mjög margir kjósendur láti þetta eitt og sér ráða sínu atkvæði, en það getur skipt máli. Þá á það að fá að skipta máli og menn eiga að vera settir undir þennan aðila, þeir sem þetta skipa.

Hæstv. forseti. Það er því mitt mat að lýðræðislega kjörnir fulltrúar kjósenda á Alþingi séu best til þess fallnir að velja sjö menn í hlutfallskosningu sem kosnir verða í stjórn Ríkisútvarpsins á hluthafafundi. Ég bendi sérstaklega á að mikilvægt er að Alþingi leitist við að sjá til þess að til stjórnarsetunnar veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins. Með því er átt við að innan stjórnarinnar sé m.a. þekking og reynsla á sviði rekstrar fyrirtækja, fjölmiðla og menningarmála ásamt ýmsu öðru. Má ég til dæmis nefna þann mikilvæga lið og þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins sem snýr að íþróttamálum svo eitt sé nefnt.

Vegna þess skamma frests sem er til stefnu vegna sérstaks aðalfundar um kosningu nýrrar stjórnar Ríkisútvarpsins gafst ekki færi á að hafa samráð við hlutaðeigandi hagsmunaaðila sem nú er ætlað hlutverk við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Væntanlega mun gefast færi á því við meðferð málsins hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Virðulegur forseti. Ég hef greint frá helstu atriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.