142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í frumvarpið. Ég verð að viðurkenna að ég geri þetta svolítið eftir minni, en mig minnir að þegar breytingin var gerð í vetur hafi ekki bara verið gerð breyting á vali og samsetningu stjórnar Ríkisútvarpsins heldur líka á hlutverki stjórnar. Stjórnin var þannig að hún hafði bara tök á því að hafa áhrif og koma að rekstrarlegum þáttum stofnunarinnar en með breytingunni sem var gerð í vor eða í vetur voru umsvif og völd stjórnarinnar aukin þannig að hún hefur meiri áhrif á dagskrárlega þætti stofnunarinnar. Þess vegna finnst mér eftirtektarvert þegar verið er að færa samsetningu stjórnarinnar aftur í þennan pólitíska farveg sem mér sýnist hæstv. ráðherra vera að gera, að ekki skuli vera gerð breyting á þessu. Væri þá ekki eðlilegra án þess að ég sé að leggja sérstakt mat á það — það á eftir að fjalla um málið í nefnd og taka það til 2. umr. eftir umsagnir o.s.frv. — að hæstv. ráðherra færði stjórnina til fyrra horfs en gera þá breytingu sem hér er gerð. Búið er að auka möguleika stjórnarinnar til að hafa áhrif á dagskrárlega þætti, innihald og efnislega umfjöllun stofnunarinnar en á sama tíma verið að færa til baka og auka vægi pólitíska nærveru í stofnuninni.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra. Hefði ekki verið eðlilegra að stíga þetta skref algerlega til baka en ekki bara hálft skref aftur á bak eins og hér er gert?