142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rifjum aðeins upp hvernig þessi valnefnd átti að vera. Í henni áttu að sitja fimm einstaklingar, þar af þrír valdir pólitískt hér á þinginu. (Gripið fram í.) Ja, hv. þingmaður greiddi nú atkvæði í málinu. Síðan átti að vera einn frá Bandalagi íslenskra listamanna, við vitum hver það hefði átt að vera, fyrir liggur tilnefning um það, það var ágætur fyrrverandi þingmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, og síðan var komin tilnefning frá háskólanum um Ólaf Þ. Harðarson, mjög fært og gott fólk.

Ég ætla að halda því fram að þegar maður skoðar valnefndina, hvernig hún er samansett með þremur fulltrúum héðan úr þinginu og þeim tveimur fulltrúum sem nefndir voru, þá finnst mér það svolítið bratt að halda því fram að þar hafi menn fundið upp formúluna fyrir því að koma pólitíkinni út, mér finnst það nokkuð bratt, og hafa svo sagt: Við ætlum að breyta lögunum um Ríkisútvarpið og hlutverk stjórnarinnar. Á þeirri forsendu verður að segja eins og er að menn hafa verið að mínu mati býsna bjartsýnir hvað þar mundi eiga sér stað.

Ég tel enn og aftur, árétta og ítreka að það sé hreinlegra, skynsamlegra og lýðræðislegra að gera það þannig að æðsta stofnun þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga, skipi stjórn þeirrar mikilvægu stofnunar þjóðarinnar, Ríkisútvarpsins. Og það á að vera þannig að beinn rekjanleiki sé að ákvörðuninni þannig að kjósendur geti með atkvæði sínu sýnt hug sinn ef menn halda ekki rétt á í þessu máli. Það er vandinn með valnefndir. Ég er þeirrar skoðunar að valnefnd geti vel átt við við ákveðnar aðstæður en ég tel að hún eigi ekki við hér.

Enn og aftur, ég minni á að í valnefndinni var gert ráð fyrir að þrír fulltrúar kæmu héðan og yrðu skipaðir héðan og hinir tveir kæmu frá Bandalagi íslenskra listamanna og frá háskólasamfélaginu. Það má heita mikil bjartsýni að halda það að sú nefnd yrði alveg sérstaklega ópólitísk og það yrði langur armur sem mundi mynda þetta armslengdarsjónarmið sem lýst er.